MINITALIA
  • HEIM
  • HÉRUÐ ÍTALÍU
    • ABRUZZO
    • BASILICATA
    • CALABRÍA
    • CAMPANÍA
    • EMILIA - ROMAGNA
    • FRIULI - VENEZIA GIULIA
    • LAZIO
    • LÍGÚRÍA
    • LOMBARDÍA
    • MARCHE
    • MOLISE
    • PIEMONTE
    • PUGLIA
    • SARDINÍA
    • SIKILEY
    • TOSKANA
    • TRENTINO - ALTO ADIGE
    • ÚMBRÍA
    • VALLE D'AOSTA
    • VENETO
  • MATUR
    • FORRÉTTIR
    • PASTA
    • RISOTTÓ
    • PIZZUR
    • AÐALRÉTTIR
    • EFTIRRÉTTIR
    • BRAUÐ OG KÖKUR
    • SÓSUR OG PESTÓ
  • VÍN
    • VÍNHÉRUÐ ÍTALÍU >
      • SIKILEY
      • PIEMONTE
      • TOSKANA
      • ÚMBRÍA
      • VENETO
    • RAUÐVÍN
    • HVÍTVÍN
    • KOKTEILAR
  • FERÐALAGIÐ
    • AMALFÍ
    • BERGAMO
    • BOLOGNA
    • CAPRI
    • CINQUE TERRE
    • FENEYJAR
    • FLÓRENS
    • GENÓA
    • LUCCA
    • MINORI
    • MÍLANÓ
    • PARMA
    • PISA
    • PORTOFINO
    • POSITANO
    • RAVELLO
    • SAN GIMIGNANO
    • SAN REMO
    • SIENA
    • TÓRÍNÓ
    • TRIESTE
    • VERONA
    • VIAREGGIO
  • LÍFSTÍLLINN
  • UM OKKUR

VILLA ANTIONORI IGT 2016 - EINFALDLEGA FRÁBÆRT MATARVÍN

10/6/2021

0 Comments

 
Vínhúsið Marchesi Aninori er einn stærsti og virtasti vínframleiðandi Ítalíu í dag en sögu þess má rekja allt aftur til ársins 1385. Á áttunda áratug síðustu aldar spilaði Marchesi Antinori stóran þátt í „Super-Tuscan“byltingunni og kom fram með vín á borð við Tignanello, Solaia og Guado al Tasso. En þessi bylting hófst þegar vínbændur í Toskana hófu að setja á markað afburðarvín, svokölluð Super Tuscans, sem uppfylltu ekki skilyrðin til að teljast DOC/G-vín en mörg þeirra öðluðust aftur á móti viðurkenningu víða um heim. Flokkurinn IGT ,Indicazione Geografica Tipica, leggur mesta áherslu á uppruna vínanna en síður hvaða þrúgur eru notaðar við víngerðina, framleiðsluaðferðir vínanna eða stíl þeirra.
Picture
Villa Antinori IGT 2016 fellur í þennan flokk en það er  framleitt úr Sangiovese, Cabernet Sauvignon, Merlot, Syrah og Petit Verdot. Þetta vín kom fyrst á markað árið 1928 og var þá flokkað sem Chianti Classico. Á árinu 2001 breytti Piero Antinori, núverandi stjórnandi vínhússins, þeim þrúgum sem notaðar eru í þetta vín og samsetningu þeirra. Það var til þess að í dag er það flokkað sem IGT en ekki Chianti Classico DOCG. Vínið er fyrst látið þroskast 12 mánuði á frönskum, ungverskum og amerískum eikartunnum og síðan látið þroskast í 8 mánuði á flösku áður en það var sett á markað.

Hér er um að ræða frábært matarvín sem passar vel með bragðmiklum ítölskum pastaréttum, t.d. Pasta alla Norma eða Spaghetti alla puttanesca, smellpassar líka með rauðu kjöti, bæði lamba- og nautakjöti, og jafnvel léttri villibráð.
​
Villa Antinori IGT 2016 fær fjórar og hálfa stjörnu –flaskan af þessu víni kostar kr. 3.399 í vínbúð allra landsmanna.
0 Comments

SANTA CRISTINA IGT 2018 - dásamlegt vín á góðu verði

4/15/2021

0 Comments

 
Vínið sem hér um ræðir, Santa Cristina IGT, kom fyrst á markað árið 1946. Í upphafi var þetta vín skilgreint sem Chianti Classico en frá árinu 1987 var það fyrst skilgreint sem Vino da Tavola en síðan sem IGT en sá flokkur kom til sögunnar árið 1992 í þeim tilgangi að auka frelsi í ítalskri víngerð. Flokkurinn IGT (Indicazione Geografica Tipica) leggur mesta áherslu á uppruna vínanna en síður hvaða þrúgur eru notaðar við víngerðina framleiðsluaðferðir vínanna eða stíl þeirra.
Picture
Santa Cristina Toscana IGT 2018 er framleitt mestmegnis úr þrúgunni Sangiovese en að auki er að finna í litlu magni þrúgurnar Cabernet Sauvignon, Syrah og Merlot. Vínið er látið þroskast til helminga á stáltönkum annars vegar og hins vegar eikartunnum þar sem það fær að þroskast í 6 mánuði.

Þetta rúbínrauða vín tekur á móti manni með miklum angan af dökkum berjum, t.d. sólberjum og kirsuberjum, að auki örlar á eik, jörð og jafnvel lyngi. Í munni er vínið ávaxtaríkt, t.d. er þar að finna kirsuber, hindber og sólber. Hér er um að ræða vín í góðu jafnvægi með mjúkum tannínum, flottri sýru, góðri fyllingu og þó nokkru eftirbragði.

Santa Cristina IGT 2018 fær fjórar stjörnur - MJÖG GÓÐ KAUP á þessu verði, kr. 2.398.

​Þetta er virkilega flott matarvín sem passar vel með bragðmiklum ítölskum pastaréttum t.d. réttum á borð við Spaghetti all'amatriciana, Spaghetti alla puttanesca og gæti líka smellpassað með Kjúklingi veiðimannsins.
0 Comments

ÞAÐ KOMA MÖGNUÐ VÍN FRÁ PIEMONTE

5/11/2020

0 Comments

 
​​Piemonte er eitt af bestu og virtastu vínræktarhéruðum Ítalíu og þaðan koma mörg af bestu vínum landsins. Þetta er fjalllent hérað, umkringt Alpafjöllunum á þrjá vegu og hefur hérðið landamæri bæði við Frakkland og Sviss en nafn héraðsins, Piemonte, er dregið af ítölsku orðunum piedi sem þýðir fótur og montagna sem þýðir fjall. Landslagið í Piemonte er stórkostlegt, með sínar ávölu hæðir, auðugu borgir og síðast en ekki síst stórkostlegu vínekrur. Veðurfarið í Piemonte er mjög ákjósanlegt til víngerðar þar sem sumrin eru heit, sólrík og þurr en veturnir aftur á móti kaldir er vínviðurinn liggur til dvala.
Picture
Vínræktin í Piemonte einkennist af mörgum smáum fjölskyldureknum vínframleiðendum sem leggja ofuráherslu á gæði framleiðslunnar. Mikil virðing er borin fyrir víngerðarhefð héraðsins en á sama tíma eru að koma fram fjöldi ungra og metnaðarfullra víngerðarmanna sem sjá ný tækifæri í ræktun á staðbundnum þrúgum héraðsins.

Allra bestu vín héraðsins Piemonte koma frá svæðinu Langhe sem þaulskipulagt vínræktarhérað með svipuðum hætti og héraðið Búrgúndí í Frakklandi. Fyrst er að nefna svæðið sem kallast Langhe en innan þess er að finna svæði sem kallast Alba og innan þess er að finna svæði sem kennd eru við bæina  Barolo og Barbaresco sem síðan eru skilgreind niður á tilteknar ekrur líkt og raunin er í héraðinu Búrgúndí í Frakklandi.
​Nebbiolo - heimakær þrúga sem skapar ótrúleg vín á borð við Barolo og Barbaresco
Mörg af stærstu og frægustu vínum Ítalíu eru framleidd úr þrúgunni Nebbiolo sem talin er vera ein göfugasta þrúga Ítalíu. Þetta eru dökk, kröftug, sýrumikil og tannísk vín sem oft þurfa að þroskast í mörg ár til að ná sínum hæstu hæðum. Vín sem framleidd eru úr þrúgunni Nebbiolo eru meðal þeirra vína frá Ítalíu sem best þola geymslu og þurfa oft á tíðum mörg ár eða áratugi áður en þau ná sínum hæðum.

Þessi þrúga býr yfir miklum gæðum en þarfnast ákveðinna vaxtarskilyrða til að þrífast vel og hingað til hefur ekki tekist að rækta hana víða. Þessi þrúga þarfnast langra og heitra haustmánaða til að ná æskilegum þroska svo útkoman verði virkilega góð. Bestu vínin úr þessari þrúgu koma frá tiltölulega litlu svæði í héraðinu Piemonte, nánar tiltekið í kringum bæina Barolo og Barbaresco.

Barolo DOCG
Vínin frá þorpinu Barolo eru öflugust þeirra vína sem koma frá Piemonte. Liturinn á þeim er ljósmúrsteinsrauður sem gefur manni ekki raunverulega vísbendingu um styrkleikann í þessu víni sem oft er í kringum 14%. Vínþjónar lýsa oft vínunum frá Barolo með orðunum “rósir” og “tjara” en einnig eru þeim lýst með orðum á borð við hindber, kirsuber, trönuber, kakó, lyng, lakkrís, krydd, jörð og trufflusveppir.

Barolo-vín eru látin þroskast í að minnsta kosti 3 ár áður en þau eru sett á markað, þar af í 18 mánuði á eikartunnum. Það hljómar í sjálfu sér langur tími en þessi vín verða að þroskast vel og lengi og oftar en ekki eru þessi vín geymd í að minnsta kosti áratug áður en þeirra er neytt. Barolo-vín sem merkt eru “Riserva” hafa verið geymd í að minnsta kosti fimm ár áður en þau eru sett á markað og vín sem merkt eru “Vigna” eru Barolo-vín þar sem þrúgurnar koma allar af sömu ekrunni.

Barbaresco DOCG
Bærinn Barbaresco er í næsta nágrenni við Barolo en þaðan koma svipuð vín, ögn mýkri en standa mörg hver jafnfætis vínunum frá nágrannabænum, Barolo. Vínin frá Barbaresco eru ekki eins tannísk og vínin frá Barolo þar sem frjósamur jarðvegur Barbaresco byggir mest á kalksteini ásamt því að lotslagið er ögn mildara en í Barolo. Vínin frá Barbaresco eru samt virkilega tannísk, þau eru algjör skrímsli. Þau eru einungis vingjarnlegri og vinalegri skrímsli.

Það má lýsa vínunum frá Barbaresco með orðum á borð við jarðaber, hindber, trönuber, anís, rósir, krydd og súkkulaði. Vínin frá Barbaresco eru látin þroskast í það minnsta 26 mánuði, eða rúmlega 2 ár og áfengismagn þeirra má ekki vera lægra en 12,5%. Barbaresco Riserva verður aftur á móti að verið geymt í að minnsta kosti 50 mánuði áður en það er sett á markað, eða rúmlega 4 ár. Vín af þessari tegund geta batnað í mörg mörg ár ef þau eru geymd við góðar aðstæður.
​Dásamleg matarvín úr þrúgunni Barbera - drekkast ung en sum hægt að geyma
Í kringum bæina Asti og Alba í Piemonte eru framleidd ögn einfaldari vín úr þrúgunni Barbera. Þekktustu vínin úr Barbera-þrúgunni eru Barbera d’Asti, Barbera del Monferrato og Barbera d’Alba. Vínin úr þrúgunni hafa ekki sömu stöðu og vínin úr nágrannaþrúgunni Nebbiolo. Þrúgan Barbera er ein mest ræktaða þrúga heimsins en virðist hvergi gefa af sér virkilega góð vín nema í heimahögum sínum í Piemonte. Í Piemonte er Barbera bæði útbreidd og vinsæl þrúga en að auki er nokkuð um hana í nágrannahéraðinu Lombardia. Vínin úr þrúgunni Barbera geta verið björt, létt og mjög ávaxtarík en einnig verið nokkuð stór og mikil vínl, t.d. Barbera d’Asti.

Þetta eru sýrumikil, litsterk og ávaxtarík vín sem ber helst að njóta á meðan þau eru ung og ferskleikinn er í fyrirrúmi. Þau eru mun auðdrekkanlegri á sínum yngri árum en vínin úr nágrannaþrúgunni Nebbiolo þótt sum þeirra geti þroskast vel og lengi við réttar aðstæður, t.d. Barbera d’Asti . Barbera-vínin eru þar af leiðandi vinsæl matarvín hjá Norður-Ítölum og þótt víðar væri leitað. Það má lýsa þessum vínum með orðum eins og kirsuber, rifsber, brómber, lakkrís, þurrkuð krydd og svartur pipar. Vínin búa yfir ferskri sýru, tiltölulega mjúkum tannínum.

Ung og fersk vín úr þrúgunni Dolcetto - vanmetið matarvín
Í Piemonte eru líka framleidd virkilega vinaleg vín úr þrúgunni Dolcetto og eru þekktustu vínin Dolcett d’Alba, Dolcetto d’Acqui og Dolcetto d’Ovada. Þetta eru dökkrúbínrauð og ávaxtarík rauðvín, oft tiltölulega há í áfengismagni. Öfugt við hina erfiðu nágrannaþrúgu, Nebbiolo, þá er Dolcetto auðveld í ræktun og þrífst virkilega vel, meira að segja við erfið skilyrði. Dolcetto þýðir í raun og veru “þessi litli sæti” þar sem hún í rauninni pínulítið sæt í samanburði við þrúguna en þrátt fyrir nafngiftina þá einkennir mikill ávöxtur þessi vín ásamt tiltölulega ágengum tannínum. Vínin úr Dolcetto-þrúgunni eru gerð til þess að drekkast innan 3-5 ára og batna ekkert sérstaklega við frekari geymslu. Virkilega góð matarvín með hinum ýmsum kjöt- og grænmetisréttum.

Minna þekktar þrúgur sem koma virkilega óvart
En Piemonte snýst um fleira en einungis Nebbiolo, Barbera og Dolcetto þrátt fyrir að framangreindar þrúgur leiki öll aðalhlutverkin. Þrúgur á borð við Grignolino, Brachetto og Friesa leikan vel í aukahlutverkum og oft stelur sá senunni sem leikur virkilega vel í aukahlutverki stelur. Vínin úr þrúgunni Grignolino eru virkilega góð matarvín sem þurfa tiltölulega litla geymslu og koma þar af leiðandi ung á markað, tilbúin til að njóta með góðum mat. Vín úr þrúgunni Brachetto eru virkilega ávaxtarík og tiltölulega sæt rauðvin. Þetta geta verið dásamleg vín og er eitt af þerssum rauðvínum sem parast fullkomlega með súkkulaði. Þrúgan Freisa er ein af elstu þrúgum Piemonte og er af mörgum talin vera móðir hinnar einu sönnu þrúgu Nebbiolo. Vínin úr þessari þrúgu eru kannski ekki þau allra þekktustu en þau eru svo sannarlega áhugaverð.

Góð hvítvín finnast í Piemonte
Þó rauðvínin séu fyrirferðameiri í Piemonte þá má finna góð hvítvín inn á milli, t.d. DOCG-vínin Cortese di Gavi sem er framleitt úr þrúgunni Cortese og Roero Arneis úr þrúgunni Arneis. Ein allra þekktustu vín héraðsins eru hvorki rauðvín né hvítvín heldur freyðivín framleidd í nágrenni bæjarins Asti. Þetta er annars vegar vínið Moscato d’Asti og hins vegar Asti Spumante, bæði framleidd úr þrúgunni Moscato. Þetta eru sæt og ávaxtarík vín með ferskleikann í fyrirrúmi, oftast drukkin ísköld við hin ýmsu tækifæri þegar á að skála.
0 Comments

DONNAFUGATA ANTHILIA 2017 - STÚTFULLT AF SIKILEYSKRI SÓL

8/29/2018

0 Comments

 
Á Sikiley þekur vínviður meira svæði en í nokkru öðru héraði Ítalíu en stór hluti vínberjaframleiðslunnar fer í rúsínuframleiðslu sem nýttar eru til eldamennsku eyjaskeggja. En þrátt fyrir það þá koma mörg góð vín frá Sikiley og hefur vínræktin tekið miklum framförum á undanförnum árum og framboðið aukist mikið af virkilega góðum vínum.
Picture
Vínhúsið Donnafugata, sem þýðir á íslensku „kona á flótta“, var stofnað á árinu 1983 af hjónunum Giacomo og Gabriella Rallo en í dag eru það synir þeirra, Jose og Antonio, sem stýra skútunni. Í vínbúð allra landsmanna má nálgast þrjú vín frá þessu virta vínhúsi, annars vegar rauðvínin Donnafugata Sedara og Donnafugata Sherazade og hins vegar Donnafugata Anthilia.

Hvítvínið Donnafugata Anthilia 2017 er framleitt úr sikileysku þrúgunum Ansonica og Cataratto, sem er uppistöðuþrúgan í þessu víni, ásamt smá magni af frönsku þrúgunum Chardonnay og Viognier. Þetta er bjart og ávaxtaríkt hvítvín með töluverðum sítrusávexti. Þetta vín inniheldur endalaust magn af sumri og sól. Frábært eitt og sér á fallegum sumardegi en hentar líka vel með sjávarfangi, t.d. skelfisk, sjávarréttapasta eða jafnvel humri.

Donnafugata Anthilia 2017 fær fjórar stjörnur - FRÁBÆR KAUP á þessu verði en flaskan kostar aðeins kr. 2.390 í vínbúð allra landsmanna.
0 Comments

LIBRANDI CIRO ROSSO DOC 2014 - virkilega gott matarvín á frábæru verði

4/10/2018

0 Comments

 
Þetta stórgóða vín kemur frá vínhúsinu Librandi í héraðinu Calabria sem staðsett er syðst á Ítalíu. Vínhúsið Librandi var stofnað um miðja síðustu öld hefur alla tíð verið er í eigu samnefndrar fjölskyldu sem hefur mikla ástríðu fyrir þeim þrúgum sem eiga uppruna sinn að rekja til héraðsins.
Picture
Librandi Ciro Rosso DOC 2014  er framleitt að öllu leyti úr þrúgunni Gaglioppo sem upprunin er frá Calabria og má líkja henni að nokkru leyti við frönsku þrúguna Pinot Noir. Þetta vín er fyrst látið þroskast á stáltönkum til að viðhalda unggæðingslegum karakter þess áður en það er látið þroskast í nokkra mánuði á flösku áður en það er sett á markað.

Ekki láta blekkjast þótt litur þessa víns sé nokkuð ljós, svolítið í anda Pinot Noir, því hér er um að ræða hörkuvín sem svíkur engan. Angan af rauðum ávexti, pínulítið kryddaður, ásamt trönuberjum og plómum. Þroskuð tannín, ágætis fylling, fersk sýra og ljúft eftirbragð. Auðmjúkt og afslappað vín.

Þetta er virkilega gott matarvín sem passar vel með bragðmiklum ítölskum pastaréttum, t.d. Spaghetti alla scarpariello eða Spaghetti alla puttanesca, smellpassar líka með lambakjöti og jafnvel léttri villibráð.

Librandi Ciro Rosso DOC 2014 fær fjórar stjörnur - FRÁBÆR KAUP á þessu verði en flaska af þessu víni kostar einungis kr. 2.295 í vínbúð allra landsmanna.
0 Comments

IL FAUNO DI ARCANUM IGT 2012 - fullkomið með jólasteikinni, frábær kaup

11/30/2017

0 Comments

 
Vínhúsið Arcanum er staðsett í nálægð við borgina Siena í héraðinu Toskana, nánar tiltekið í suð-austur hluta svæðisins Chianti Classico. Vínhúsið er í eigu Jackson-fjölskyldunnar sem á og rekur vínhús víða um heim, þ.á.m. í Bandaríkjunum, Frakklandi, Chile og Ástralíu. Við stjórnvölinn er víngerðarmaðurinn Pierre Seillan, þekktur fyrir sín störf bæði í Krakklandi og Kaliforníu.
Picture
Vínhúsið leggur mikla áherslu á að rækta franskar þrúgur og eru þar fyrirferðarmestar þrúgur á borð við Merlot, Cabernet Sauvignon og Cabernet Franc. Á þessum bæ er áherslan lögð á gæði en ekki magn en vínhúsið framleiðir einungis þrjú vín og endurspeglar hvert þeirra ákveðin karakterseinkenni víngerðarinnar í Arcanum.
 
Á áttunda áratug síðustu aldar hófst „Super-Tuscan“byltingin þegar vínbændur í Toskana hófu að setja á markað afburðarvín sem uppfylltu ekki skilyrðin til að teljast DOC/G-vín en mörg þeirra öðluðust aftur á móti viðurkenningu víða um heim. Þessi vín falla undir flokkurinn IGT (Indicazione Geografica Tipica) leggur mesta áherslu á uppruna vínanna en síður hvaða þrúgur eru notaðar við víngerðina framleiðsluaðferðir vínanna eða stíl þeirra.
 
Vínið sem hér um ræðir, Il Fauno di Arcanum IGT 2012, fellur í þennan flokk en það er framleitt úr þrúgunum Merlot (48%), Cabernet Franc (27%), Cabernet Sauvignon (22%) og Petit Verdot (3%). Vínið er fyrst látið þroskast í 12 mánuði í frönskum eikartunnum og síðan látið þroskast áfram á flöskum í töluverðan tíma áður en það er sett á markað.
 
Þetta rúbínrauða vín tekur á móti manni með angan af kirsuberjum og krydduðum tónum. Mikil fylling, fersk sýra, silkimjúk tannín og virkilega ferskt og flott eftirbragð sem lifir lengi. Dásamlegt vín í fullkomnu jafnvægi sem kemur manni sífellt á óvart. Mjög gott akkúrat núna en gæti jafnvel batnað enn frekar á næstu árum.
 
Þetta er stórgott matarvín sem hentar virkilega vel með rauðu kjöti, bæði lambakjöti og nautakjöti, dásamlegt jólavín sem hentar fullkomlega með villibráðinni, hvort sem við erum að tala um rjúpu eða hreindýr.
 
Il Fauno di Arcanum IGT 2012 fær fjorar og hálfa stjörnu – Frábær kaup á þessu verði. Drífið ykkur út í næstu verslun og tryggið ykkur flösku af þessu úrvals rauðvíni á frábæru verði.
 
Í HNOTSKURN: Frábært matarvín í góðu jafnvægi, mikil fylling og eftirbragði sek lifir lengi.
0 Comments

VENICA COLLIO MERLOT DOC 2013 - mjúkt og ávaxtaríkt, flott matarvín

9/13/2017

0 Comments

 
Í héraðinu Friuli – Venezia Giulia, rétt við landamærin við Slóveníu og Austurríki, er að finna vínhúsið Venica & Venica sem er nú ögn þekktara fyrir sín dásamlegu hvítvín en framleiðir einnig virkilega flott rauðvín úr frönsku þrúgunum Merlot og Cabernet Franc.
Picture
Venica Collio Merlot 2013 er framleitt að öllu leyti úr frönsku þrúgunni Merlot sem barst til héraðsins Friuli-Venizia Giulia árið 1869 og varð fljótt útbreidd um allt héraðið. Allar aðstæðurnar í Friuli-Venezia Giulia ásamt ákjósanlegu hitastigi henta þessari frönsku þrúgu virkilega vel. Vínið er látið þroskast á slóvenskum eikartunnum í 12 mánuði áður en það er tappað á flöskur og sett á markað.

Þetta rauðfjólubláa vín tekur á móti manni með angan af dökkum berjum og  miklum ávexti, t.d. spila plómur, kirsuber og brómber stór hlutverk. Hér er um að ræða virkilega mjúkt og ávaxtaríkt vín með góðri sýru og miðlungstannínum. Flott matarvín.

Venica Collio Merlot 2013 fær fjórar stjörnur – GÓÐ KAUP á þessu verði, kr. 2.895.

Þetta flotta matarvín smellpassar með rauðu kjöti, jafnvel villibráð og mörgum klassískum og bragðmiklum pastaréttum á borð við Penne all‘Amatriciana.
0 Comments

SANTA CRISTINA IGT 2014 - matvænt vín á góðu verði, beint frá Toskana

3/16/2017

0 Comments

 
Vínið sem hér um ræðir, Santa Cristina IGT, kom fyrst á markað árið 1946. Í upphafi var þetta vín skilgreint sem Chianti Classico en frá árinu 1987 var það fyrst skilgreint sem Vino da Tavola en síðan sem IGT en sá flokkur kom til sögunnar árið 1992 í þeim tilgangi að auka frelsi í ítalskri víngerð. Flokkurinn IGT (Indicazione Geografica Tipica) leggur mesta áherslu á uppruna vínanna en síður hvaða þrúgur eru notaðar við víngerðina framleiðsluaðferðir vínanna eða stíl þeirra.
Picture
Santa Cristina Toscana IGT 2014 er framleitt mestmegnis úr þrúgunni Sangiovese en að auki er að finna í litlu magni þrúgurnar Cabernet Sauvignon, Syrah og Merlot. Vínið er látið þroskast til helminga á stáltönkum annars vegar og hins vegar eikartunnum þar sem það fær að þroskast í 6 mánuði.

Veðurfarslega séð í Toskana var árið 2014 mjög óvenjulegt, jafnvel svo sérstakt að elstu muna ekki eftir öðru eins. Veturinn var óvenjulega hlýr og vætusamur, enda um að ræða hlýjasta vetur á þessum slóðum síðan 1834. Þegar leið fram á vorið breyttust hlutirnir lítið, hitastigið hækkaði hægt og rólega en vætan hélt áfram. Svo kom sumarið með hita undir meðallagi með þó nokkurri vætu og töluverðum raka. En til allrar hamingju kom bjartur og sólríkur september eins og himnasending og bjargaði víða uppskerutímabilinu.

Þetta rúbínrauða vín tekur á móti manni með miklum angan af dökkum berjum, t.d. sólberjum og kirsuberjum, að auki örlar á eik, jörð og jafnvel lyngi. Í munni er vínið ávaxtaríkt, t.d. er þar að finna kirsuber, hindber og sólber. Hér er um að ræða vín í góðu jafnvægi með mjúkum tannínum, flottri sýru, góðri fyllingu og þó nokkru eftirbragði.

Santa Cristina IGT 2014 fær þrjár og hálfa stjörnu - MJÖG GÓÐ KAUP á þessu verði, kr. 1.999.

Þetta er virkilega flott matarvín sem passar vel með bragðmiklum ítölskum pastaréttum t.d. réttum á borð við Spaghetti all'amatriciana, Spaghetti alla puttanesca og gæti líka smellpassað með Kjúklingi veiðimannsins.
0 Comments

IL NOSTRO ROSSO PUGLIA IGT 2015 - LÍFRÆNT, MJÚKT OG ÞÆGILEGT

2/8/2017

0 Comments

 
Það hefur verið stunduð vínrækt í Púglía í fjögur þúsund ár, lengur en í flestum öðrum héruðum Ítalíu. Í Púglía er framleitt meira magn af víni en í nokkru öðru héraði landsins. Á undanförnum árum hefur vínræktin í Púglía tekið stakkaskiptum og framfarirnar verið miklar, þökk sé nýrri tækni og nýjum viðhorfum í vínræktinni.
Picture
Vínið sem hér um ræðir, Il Nostro Rosso Puglia IGT 2015, kemur einmitt frá héraðinu Púglía og er framleitt úr tveimur af helstu þrúgum þess, Negro Amaro og Primitivo, ásamt pínulitlu magni af þrúgunni Malvasia Nera. En þess má geta að þetta vín er einvörðungu framleitt úr lífrænt ræktuðum þrúgum. Vínið er að hluta til látið þroskast í eikartunnum í sex mánuði áður en því er tappað á flöskur og sett á markað.

Þetta rúbínrauða vín tekur á móti manni með angan af rauðum ávexti, kirsuber ríkjandi. Þetta er ávaxtaríkt vín, mjúk tannín og ágætis sýra. Hér er um að ræða létt, mjúkt og þægilegt vín sem hentar vel með ýmsum ítölskum pastaréttum, t.d. Spaghettí með hráskinku, tómötum og chilli.

Il Nostro Rosso Puglia IGT 2015 fær þrjár stjörnur – ÁGÆTIS KAUP á þessu verði, kr. 1.999.
0 Comments

ISOLE E OLENA CHIANTI CLASSICO 2013 - SILKIMJÚKT MEÐ FLOTTAN KARAKTER

1/25/2017

0 Comments

 
Í hjarta svæðisins Chianti Classico í héraðinu Toskana, nánar tiltekið mitt á milli borganna Flórens og Siena, er að finna vínhúsið Isole e Olena, eitt allra besta og athyglisverðasta vínhús þessa dásamlega héraðs. Vínhúsið varð til í þeirri mynd sem það er í dag þegar De Marchi fjölskyldan keypti tvo vínhús, annars vegar Isole og hins vegar Olena, á sjötta áratug síðustu aldar og sameinaði þau undir nafninu Isole e Olena. En saga þessara tveggja vínhús í sitthvoru lagi nær aftur um hundruði ára. Í dag er vínhúsið rekið af Paolo De Marchi og hans fjölskyldu. Paolo De Marchi hefur að mörgu leyti haldið fast í sérkenni svæðisins með því að leggja mikla alúð í ræktun staðbundnu þrúgunnar Sangiovese en leitar á sama tíma stöðugt leiða til að bæta sín stórkostlegu vín.
Picture
Veðurfarslega séð var árið 2013 nokkuð venjulegt ár í Toskana. Vorið var svalt og þó nokkuð blautt. Sumarið hófst með áframhaldandi bleytu, þ.e. allur maí var nokkuð blautur og langt fram eftir júnímánuði. En síðan kom loksins sumarið og júlí, ágúst og september voru einstaklega hlýir og sólríkir mánuðir sem gjörsamlega björguðu uppskerutímabilinu og gera vín frá þessu uppskeruári einstaklega áhugaverð.
 
Isole e Olena Chianti Classico 2013 er framleitt úr þrúgunum Sangiovese 80%, Canaiolo 15% og Syrah 5%. Þetta vín er fyrst látið þroskast á tiltölulega litlum eikartunnum í 12 mánuði og síðan er það látið þroskast áfram í 3-4 mánuði á flöskum áður en það er sett á markað.
 
Þetta kirsuberjarauða vín tekur á móti manni með angan af dökkum ávexti, kirsuber. Rauður ávöxtur í munni, pínulítið kryddað, vottur af steinefnum og þónokkur eik. Mikil og fersk sýra, mjúk tannín. Virkilega flott matarvín. Góður karakter í flottu jafnvægi, flauelsmjúkt með meðallöngu eftirbragði. Þetta er vín sem gerir góðan mat betri og vínið sjálft verður líka betra með góðum mat.
 
Isole e Olena chianti Classico 2013 fær fjórar stjörnur, jafnvel fjórar og hálfa – ágætis kaup á þessu verði, kr. 3.590.
 
Hér erum við tala um virkilega flott matarvín sem smellpassar með rauðu kjöti, t.d. lamba- og nautakjöti, ásamt léttari villibráð. Prófið þetta vín endilega með Nautasteik alla Pizzaiola en það er pörun sem steinliggur. Umhellið þessu víni með góðum fyrirvara, leyfið því að opna sig.
0 Comments
<<Previous
    Picture
© 2013 Minitalia.is - Allur réttur áskilinn - kjartan@minitalia.is