MINITALIA
  • AFTUR HEIM
  • HÉRUÐ ÍTALÍU
    • ABRUZZO
    • BASILICATA
    • CALABRÍA
    • CAMPANÍA
    • EMILIA - ROMAGNA
    • FRIULI - VENEZIA GIULIA
    • LAZIO
    • LÍGÚRÍA
    • LOMBARDÍA
    • MARCHE
    • MOLISE
    • PIEMONTE
    • PUGLIA
    • SARDINÍA
    • SIKILEY
    • TOSKANA
    • TRENTINO - ALTO ADIGE
    • ÚMBRÍA
    • VALLE D'AOSTA
    • VENETO
  • UPPSKRIFTIR
    • FORRÉTTIR
    • PASTA
    • RISOTTÓ
    • PIZZUR
    • AÐALRÉTTIR
    • EFTIRRÉTTIR
    • BRAUÐ OG KÖKUR
    • SÓSUR OG PESTÓ
  • FERÐALAGIÐ
    • AMALFÍ
    • BERGAMO
    • BOLOGNA
    • CAPRI
    • CINQUE TERRE
    • FENEYJAR
    • FLÓRENS
    • GENÓA
    • LUCCA
    • MINORI
    • MÍLANÓ
    • PARMA
    • PISA
    • PORTOFINO
    • POSITANO
    • RAVELLO
    • SAN GIMIGNANO
    • SAN REMO
    • SIENA
    • TÓRÍNÓ
    • TRIESTE
    • VERONA
    • VIAREGGIO
  • UM MINITALIA

Minningabrot – Mílanó, dags. 24. september 2004

12/12/2019

0 Comments

 
Í lítilli hliðargötu, í ennþá minni íbúð, í góðu hverfi í Mílanó, nokkuð miðsvæðis, vaknaði ég við hróp og köll frá kaupmönnum hverfisins. Allt að gerast enda föstudagur en þá var alltaf matarmarkaður í götunni minni. Allt iðaði af lífi og ilmur af stórkostlegu hráefni markaðarins fyllti vitin þegar maður skáskaut sér í gegnum mannhafið sem ætlaði sér að gera góð kaup í ferskasta hráefninu í bænum. Eins og við köllum það, beint frá býli.
Picture
Kaffibarinn var að sjálfsögðu næsti áfangastaður, skyldumæting. Morgunmatur dagsins var Croissant með súkkulaði ásamt dásamlegum espressó. Alltaf það sama, maður breytir því sem virkar. Á Ítalíu er kaffimenningin rótgróin og hefðirnar sterkar. Fullkominn espressó er svo sannarlega mikilvægur þáttur í daglegu lífi Ítala en venjulegur espressó kallast á Ítalíu caffé. Á kaffibarnum safnast fólkið saman og ræðir lífið og tilveruna. Oft er margt um manninn, konuna og börnin. Allir koma og fara, staldra stutt en stundum lengi. Einn er þar alltaf og fer hvergi, kóngur í ríki. Kóngurinn þekkir alla og allir þekkja kónginn. Ég var einn af þessum öllum. Mörgum árum síðar kíkti ég á kaffibarinn minn og viti menn, kóngurinn var þar ennþá og heilsaði mér með virtum.

Næsti áfangastaður var skólastofan og dagskráin full fram eftir degi.  af endalausum fyrirlestrum. Bekkjafélagarnir 39, komu frá 25 löndum, 5 heimsálfum og töluðu 16 ólík móðurmál. Allir töluðu ensku en ítalska vann á með hverjum deginum.  Stungið á sig einum espressó í hverri pásu. Allt spurning um að halda sér vakandi, meðtaka leyndardóminn.

​Hádegishléið var kærkomið, það var hálfleikur. Maginn öskraði á næringu og innan tíðar fékk‘ann allt sem hann vildi. Alltaf var farið á sama staðinn, veitingastaðinn okkar. Þurftum aldrei að velja, hádegismatseðillinn varð alltaf fyrir valinu, kallast á ítölsku „Menu fisso“. Matseðill samansettur úr allra ferskasta hráefni dagsins. Dásamlegir ætisþistlar einkenndu fyrsta réttinn, sverðfiskur rétt númer tvö og einn espressó í lokin kláraði dæmið.


Seinni hálfleikur hófst með áframhaldandi fyrirlestrum. Allir lögðu sig fram, þóttust vera áhugasamir en hugurinn einhvern veginn á reiki. Tilhlökkun til kvöldsins var orðin mikil og jókst með hverri mínútunni. Undir lokin voru prófessorarnir farnir að tala fyrir daufum eyrum nemendanna sem komnir voru með hugann við ævintýri kvöldsins. Þegar lokaflautið gall þusti bekkurinn út úr skólanum, hersingin minnti mann helst á Viggó Viðutan að loknum vinnudegi. Næsti áfangastaður var stúdentabarinn í nágrenninu, barinn okkar.  En sú hefð hefur skapast í borginni að síðdegis er hægt að fá sér einn drykk á næsta bar og á sama tíma gæða sér á skemmtilegum smáréttum í boði hússins. Hefðin kallast „aperitivo“  Þessi skemmtilega hefð er tilvalin til þess að æra hungrið í manni rétt fyrir matinn, kíkja á mannlífið og byrja kvöldið snemma. Fátækir stúdentar í borginni líta oft á aperitivo sem máltíð í sjálfu sér og á meðal þeirra verða barir með góðum aperitivo oft frægir á örskotsstundu. Í þetta sinn var einungis dreypt og smakkað, veislan var handan við hornið.  


Veislan sem beðið hafði verið eftir með tilhlökkun átti sér stað í fallegri villu, á fallegum stað, í þessu fallegu landi. Við sátum þétt, hlið við hlið. Öll í mikilli sátt og þó nokkru samlyndi. Skenkjað í glösin, síðan aftur og enn á ný. Framboðnar kræsingar streymdu í stríðum straumum. Einn réttur í einu og allir fyrir rest. Einhvern veginn var fyrsti réttur notaður til þess að stríða bragðlaukunum. Á stórum bakka voru bornir á borð stórkostlegt úrval af ostum, skinkum og pylsum. Úrvalið magnað, lyktin unaðsleg og útsýnið stórbrotið.

Eftir heilbrigða bið var skyndilega og allt í einu bornar á borð óvæntar kræsingar. Í boði voru fáeinir risastórir ravioli, fylltir með ítölskum gráðaosti. Listaverk. Lítið á mann en minningin stórkostleg. Bragðlaukarnir voru að lokum orðnir skemmtilega pirraðir af allri þessari stríðni.

Enn á ný var skenkjað í glösin, drukkið í botn og fyllt á aftur. Yndisleg athöfn sem að lokum varð að góðum vana. En allt í einu fylltist stofan af unaðslegri angan. Í risastórri skál var borinn fram pastaréttur sem eldaður er eftir uppskrift sem haldið hefur verið leyndri innan fjölskyldunnar, mann fram af manni. Allir fá sér fjall, éta fjallið og fá sér annað. Svo koll af kolli. Einhvern veginn voru allir hættir að stríða bragðlaukunum, þeir fengu allt sem þeir vildu og fíluðu sig í botn.

Eftir mikið át færðist fjör í leikinn. Allir höfðu hátt, töluðu mikið en hlustuðu lítið. Allir eru saddir, góðir og glaðir. Eftir drykklanga stund eða mögulega tveggja kom að réttinum sem kenndur er við eftir. Rjómakenndur ís með smátt söxuðum hnetum borinn fram með rjúkandi espressó. Bolla af rjúkandi espressó er hellt yfir ísinn og verður að ómótstæðilegri kaffisósu. Á einu andartaki myndaðist þögn, allir njóta. Saman en þó í sitthvoru lagi. Eftir allar þessar kræsingar fannst okkur enn eitthvað vanta, mögulega punktinn. Rétt hanteraður espressó er punktur yfir þetta blessaða i.

Veislan stóð fram á rauða nótt, skrafað og hlegið. Öllu lýkur einhvern tímann og að lokum rann upp sú stund að halda heim á leið. Það eru svona dagar sem munu lifa í minningunni um alla framtíð. Dásamlegar minningar um tíma sem var og kemur aldrei aftur. Það er hverjum manni hollt að einbeita sér að nútíðinni, akkúrat þessari stundu, en á sama tíma er gott að geta yljað sér með góðum minningum úr fortíðinni, fullur tilhlökkunar til þess sem framtíðin ber í skauti sér.

0 Comments

KYSSUMST OFTAR, BORÐUM SAMAN OFTAR, DREKKUM OFTAR!!!

8/24/2017

0 Comments

 
Allar þjóðir hafa sína siði og sínar venjur sem skapa ákveðinn lífsstíl í hverju landi fyrir sig. Ítalir eru þar engin undantekning og er ítalski lífsstíllinn, „La Dolce Vita“, frægur um víða veröld. Hér fyrir neðan er listi yfir fjögur lítil atriði sem auðvelt er að tileinka sér og geta mögulega gert líf okkar pínulítið skemmtilegra :-)
Picture
1. Spjallaðu við verslunarfólkið, vertu fastagestur!!!
Á Ítalíu lifir kaupmaðurinn á horninu ennþá góðu lífi, allir þekkja kaupmanninn og spjalla við hann og aðra viðskiptavini um lífsins gagn og nauðsynjar. Hver verslun er lítil félagsmiðstöð þar sem gott er að koma, spjalla um daginn og veginn ásamt því að kaupa það vantar hverju sinni. Að fara út í búð getur snúist um svo miklu meira en bara að kaupa það sem vantar hverju sinni.
 
Þrátt fyrir sumpart aðrar aðstæður hér á Íslandi þá getum við svo sannarlega stundað þessa félagslegu iðju. Leitum uppi kaupmenn sem leggja áherslu á persónulega þjónustu, verðum fastagestir og dreifum fagnaðarerindinu. Munum að þetta er til staðar á Íslandi í dag og eru Melabúðin og Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar góð dæmi um svona verslanir.
Picture
2. Borðaðu oftar með fjölskyldu, vinum og kunningjum!!!
Ekki að það fólk borði ekki saman á Íslandi en samt megum við læra það af Ítölum að matarboð þarf ekki endilega að hafa langan aðdragana. Þú færð einfaldlega vini í heimsókn sem endar að sjálfsögðu með því að skellt er í góða pastasósu og niðurstaðan er VEISLA!!!. Allir borða saman, verða saddir og glaðir.
Picture
3. Drekktu oftar en minna af áfengi!!!
Ítalir drekka mun oftar en við Íslendingar en svo miklu minna magn í hvert skipti. Það sem Ítölum finnst vera allt of mikil drykkja finnst okkur Íslendingum vera upphitun. Drekkum oftar en miklu minna í hvert skipti!!!
Picture
4. Snertumst, kyssumst og föðmumst!!!
Ítalir eru talsvert fyrir snertingu frá degi til dags, kyssast á báðar kinnar og fallast í faðma við minnsta tilefni. Í gegnum tíðina hefur kalt handabandið verið helsta snerting okkar Íslendinga þó það hafi færst í vöxt að sjá fólk fallast í faðma á götum úti, jafnvel lítill koss á kinn eða tveir. Vísindalegar rannsóknir benda til þess að líkamleg snerting leysi úr læðingi hormónið Oxytocin sem fær okkur til að gera hluti sem styrkja náin tengsl, eykur samúð okkar og fær okkur til að vera góð við fólkið í kringum okkur. Koma svo!!! Snertumst, kyssumst og föðmumst svo miklu miklu meira!!!

​Nú er einungis eftir að láta hendur standa fram úr ermum og láta verkin tala!!! Buon divertimento!!!
0 Comments

NORNIN BEFANA REIKAR UM Í ENDALAUSRI LEIT AÐ JESÚBARNINU

1/3/2017

1 Comment

 
Á aðfararnótt þrettándans kemur nornin Befana fljúgandi á kústskafti sínu, smeygir sig niður um skorsteina og skilur eftir gjafir í jólasokkum barnanna.
Picture
Þrettándinn sem kallast á ítölsku Epifania di Nostro Signore er dagurinn þegar Jesúbarnið opinberaðist vitringunum þremur. Sagan segir að nornin Befana hafi fengið fréttir af fæðingu Jesúbarnsins frá vitringunum þremur sem voru á leið sinni til að gefa jesúbarninu gull, reykelsi og myrru. Vitringarnir buðu Befana að slást í hópinn en hún sagðist ekki geta komist með þar sem hún væri svo upptekin við húsverkin. Stuttu síðar skipti Befana um skoðun en þrátt fyrir mikla leit hafði hún ekki upp á vitringunum þremur á nýjan leik. En síðan þá hefur hún reikað um í stöðugri leit að Jesúbarninu og skilur eftir gjafir hjá hverju sofandi barni sem verður á vegi hennar, í þeirri von að um sé að ræða sjálfan Jesús Krist. Hún klifrar niður skorsteina á aðfararnótt þrettándans og gefur góðu börnunum sælgæti og ávexti en óþekku börnin fá einungis svört kol, lauk eða jafnvel hvítlauk.
1 Comment

Leyndarmálið á bak við grannan vöxt Ítala felst í 10 einföldum reglum!!!

1/1/2017

6 Comments

 
Hvernig geta Ítalir verið meðal grennstu þjóða heims, umkringdir endalausu magni af pizzum, pasta, focaccia og risotto? Það er ástæða fyrir öllu, ekkert gerist af sjálfu sér. Leyndardómurinn felst í 10 einföldum reglum sem auðvelt er að tileinka sér og gera að góðum venjum hversdagsleikans.
Picture
1. Ítalir leggja endalausa áherslu á ferskleika hráefnanna
Ítalir leggja mikið upp úr ferskleika hráefnanna, nýta hráefni héraðsins og árstíðabundin hráefni; hvort sem við erum að tala um ferskan fisk, tómata, kryddjurtir, ætiþistla, eggaldin, kúrbít eða nýtýndar sítrónur,  svona gæti maður haldið áfram að telja endalaust. Pasta er soðið „al dente“, oft einungis borið fram með slettu af ólífu eða einfaldri tómatssósu og fersku grænmeti. Og skammtarnir alltaf litlir, hæfilegir!!!
 
2. Ítalir borða litla skammta og allt er einhvern veginn í jafnvægi
Andstætt við Bandaríkin þá eru skammtarnir á Ítalíu mun minni, hvergi er að finna "supersize" máltíðir eða linnulaus tveir fyrir einn tilboð. Þetta er að vísu ekki einhlítt þar sem ítalskar ömmur vilja að barnabörn sín borði og borði; þar sem þau eru nú jú að stækka.
 
Ítalir hugsa í sjálfu sér miklu meira um gæði matarins en hversu mikið er af honum, þ.e. betra er að langa í meira en að liggja meðvitundarlaus af áti. Ítalir leggja mikla áherslu á þetta jafnvægi á milli magns og gæða; ekki of mikil fita, akkúrat nógu mikið af kolvetnum og mikið af fiski og kjúklingi.
 
3. Ítalir nota aðeins eina tegund af olíu og það er ÓLÍFUOLÍA
Ítalir nota nær eingöngu ólífuolíu í matargerð sína; hvort sem er í sósuna, á salatið, við steikinguna eða bara til að bragðbæta allt mögulegt. Ólífuolían spilar stórt hlutverk í lífi fólksins við Miðjarðarhafið og er ómissandi partur af ítalskri matargerð. Í ólífuolíunni er að finna fitusýrur sem bæði eru hollar og góðar fyrir mann.
 
4. Ítalir borða léttan kvöldverð
Margir hafa þá ímynd af Ítölum að þeir borði margréttaðan kvöldverð á hverju einasta kvöldi en það er langlífur misskilningur. Ítalir borða yfirleitt léttan kvöldverð, t.d. grænmetissúpu, smá kjötmeti, lítinn disk af pasta eða risotto. En þegar blásið er til veislu stendur hún yfirleitt lengi og réttirnir endalaust margir. 
 
5. Ítalir fara í endalausar gönguferðir
Ítalir eiga sérstaka sögn í sínu tungumáli yfir það að“ fara í gönguferð“ en það er sögnin „passeggiare“. Ítalir fara í endalausar gönguferðir, hvort sem það eru gönguferðir um hverfið sitt, borgina sína eða sérstakar ferðir til nágrannabæja og borga til þess einfaldlega að „fara í gönguferð“. Það er í öllum þessum gönguferðum sem Ítalir brenna sínum óþarfa kaloríum.
 
6. Ítalir borða alltaf morgunmat en lítinn morgunmat
Ítalir leggja mikið upp úr mikilvægi þess að fá sér alltaf morgunmat en samt alls ekki mikinn morgunmat; dásamlegur esspressó, macchiato eða cappuccino ásamt croisssant kalla Ítalir „morgunmat guðanna“.
 
7. Ítalir borða ekki skyndibitamat
Ítalskar matvöruverslanir eru ekki uppfullar af gosdrykkjum, sælgæti og snakki líkt og sambærilegar verslanir víða um heim, þ.á.m. hér á landi. Ítalir borða sjaldan á milli mála og aldrei yfir sjónvarpinu eða tölvunni sem er slæmur ávani sem við Íslendingar höfum því miður líklega tileinkað okkur frá Bandaríkjunum. Ennfremur borða Ítalir ótrúlega lítið magn af skyndibita og hafa bandarískar skyndibitakeðjur átt erfitt uppdráttar á Ítalíu. Inn á McDonald‘s í Mílanó heyrir þú engan tala ítölsku; þar er eingöngu að finna túrista og fólk af erlendu bergi brotið.
 
8. Ítalir borða ekki pizzur daginn út og daginn inn
Það er algengur misskilningur að Ítalir borði pizzur alla daga vikunnar. Það er aftur á móti vinsælt hjá ítölum að gera sér dagamun um helgar, fara út með góðum vinum og fá sér sína uppáhalds pizzu á sinni uppáhalds pizzeríu.
 
9. Ítalir drekka nánast aldrei gosdrykki eða aðra sæta drykki
Ítalir drekka ekki gosdrykki með mat, það er einfaldlega bannað. Aftur á móti drekka flestir Ítalir vatn með matnum ásamt glasi af léttvíni. Takið eftir, glasi af léttvíni, alls ekki heilli flösku.
 
10. Ítalir fara aldrei í megrun
Ítalir fara aldrei í brjálaða megrun þar sem eru að borða allajafna virkilega hollan og góðan mat. Ef þeir vilja léttast þá fá þeir sér einfalda tómatssósu út á pastað í stað rjómasósunnar, grilla eggaldinið með smá ólífuolíu í stað þess að djúpsteikja það. Þeir einfaldlega leggja áherslu á hollari útgáfu af venjulegri ítalskri matargerð. í stað þess að takast á við enn einn megrunarkúrinn.
6 Comments

ÍTALIR SOFA Í RAUÐUM NÆRFÖTUM UM ÁRAMÓT - Ítalskar hefðir um áramót!!!

12/28/2016

1 Comment

 
Á Ítalíu er gamlársdagurinn kenndur við hinn helga páfa San Silvestro. Þessi síðasti dagur ársins er almennur frídagur, rétt eins og aðfangadagur, en aftur á móti er nýársdagur almennur frídagur á Ítalíu. Sjálf áramótin eins og við köllum þau kallast á Ítalíu „capodanno“ sem dregið er af orðunum capo di anno sem myndu útleggjast á íslensku „upphaf árs“.
Picture
Við þessi tímamót halda Ítalir að sjálfsögðu stórar veislur fyrir vini og vandamenn sem kallast La Festa di San Silvestro. Matur og vín spila ávallt stórt hlutverk þegar Ítalir halda veislur og hér er engin undantekning gerð á þeirri reglu. Um kvöldið er borðaður margréttaður kvöldverður þar sem mikilvægasti rétturinn er bjúgnabaunasúpa sem á ítölsku nefnist Cotechino di lenticchie en baunirnar eiga að gefa manni ríkidæmi og heppni á nýju ári.

Að miðnætti er venjan að fagna nýju ári með flugeldasýningum. Flestir bæir á Ítalíu skipuleggja flugeldasýningu á bæjartorginu en að sjálfsögðu er flugeldum einnig skotið upp í einkasamkvæmum um gjörvalla Ítalíu. Í mörgum bæjum er dansað á bæjartorginu á undan flugeldasýningunni og ennfremur eru haldnir stórir útitónleikar í borgum á borð við Róm, Mílanó, Bologna, Palermo og Napolí.

Að sjálfsögðu fagna Ítalir nýju ári með því að skála í Vino spumante eða Prosecco. Þessar veislur á gamlárskvöld standa yfirleitt yfir fram undir morgun til þess að geta horfa á fyrstu sólarupprás ársins.

Og síðast en ekki síst má alls ekki gleyma að klæðast rauðum nærfötum um áramót þar sem það boðar heppni á nýju ári ;-)
1 Comment

SVONA ERU EKTA ÍTÖLSK JÓL - TANTI AUGURI DI BUON NATALE

12/19/2016

0 Comments

 
Jólahald á Ítalíu byggjast á rótgrónum hefðum sem geta verið mismunandi á milli héraða. Miðnæturmessa á aðfangadag er fastur liður i jólahaldi flestra Ítala en fjölbreytileikinn í jólaréttunum er meiri en við eigum að venjast. Mikil áhersla lögð á kræsingar jólahaldsins, réttirnir fjölbreyttir og ólíkir milli héraða.
Picture
Aðfangadagur Jóla
Aðfangadagur jóla er ekki almennur frídagur á Ítalíu, frekar en á Íslandi, þó loka verslanir oft örlítið fyrr en venjulega. En vinir og fjölskylda hittast þó um kvöldið og borða saman úrval fiskrétta. Úrval fiskrétta er vinsæll á borðum Ítalía á aðfangadegi jóla þar sem hefð er fyrir því að borða ekki kjöt á þessum degi en aðfangadagskvöld er nefnt „La Vigilia di Natale“ eða aðfangadagsfasta.

Eftir kvöldverð á aðfangadagskveldi jóla fara flestir til messu en eftir þá heilögu stund er boðið upp á Panettone, hina víðfrægu ítalska jólaköku Ítala. Allir ítalir borðar Panettone yfir hátíðarnar sem upprunalega kemur frá Mílanó en með henni er að sjálfsögðu drukkið Prosecco eða Vin Santo.

Jóladagur
Jólaveislan sjálf hefst á hádegi á jóladag með mikill máltíð sem ber nafnið Il Pranzo di Natale. Hún er kannski ekki eins hátíðleg og við Íslendingar eigum að venjast en undirbúningurinn mikill og fast haldið í hefðirnar. Á þessu degi taka Ítalir extra langan tíma til að borða og njóta matarins til fullnustu. Pakkarnir eru oft teknir upp eftir matinn eða einfaldlega á milli rétta. Einn í einu en allir fyrir rest.

Víðast um Ítalíu er kjöt haft á borðum á jóladag en úrvalið ólíkt eftir héruðum. Þannig er t.d. naut á borðum í héraðinu Piemonte en lamb í nágrenni Rómar. Í Emilia-Romagna heimsþekkt er fyrir pastað sitt og þar er mikið lagt upp úr Tortellini in brodo sem eru heimagerðir tortellinií góðu soði sem hanterað hefur verið eftir kúnstarinnar reglum. Í héraðinu Veneto er aftur á móti lög mikil áhersla á silkimúka polentu sem oft er borin fram á jólum með góðu kjöti, líklega af nýslátruðu.

Eftirréttirnir eru líka fjölbreytilegir, þó að Panettone sé líklega sá eini sem er eingöngu tengdur jólunum. Panettone er upprunalega frá Mílanó, en er þó borðað víða annars staðar. Í Veneto og Verona njóta menn þess líka að borða torrone, sem er ljóst möndlunúggat, og í Toskana og Siena er panforte, dökk og þétt ávaxtakaka, vinsæl og svo eru sætar pastakúlur sem kallast Sruffoli á borðum í Napólí og þar í kring. Þá njóta Ítalir víða um land þess að fá sér Cantucci-kökur með Vin Santo yfir hátíðarnar.“

Annar í jólum
Annar á jólum sem á Ítalíu er kallaður Il giorno di Stefano er líkt og hér á landi þar sem vinir hittast, styrkja böndin og borða saman góðan mat.

TANTI AUGURI DI BUON NATALE!
0 Comments

CICCIOLINA - LISTAMAÐUR EÐA LÁGKÚRULEGUR LODDARI?

11/21/2016

0 Comments

 
Ilona Staller er ítölsk-ungversk klámstjarna, sem þekktari er undir sviðsnafninu sínu, Cicciolina. Hún fæddist í Ungverjalandi en fluttist ung til Ítalíu. Cicciolina náði m.a. þeim merka áfanga að sitja eitt kjörtímabil sem þingkona á ítalska þinginu fyrir hönd Róttæka flokksins, eða Partito Radicale.
Picture
Það vakti mikla athygli um allan heim þegar Cicciolina var kjörin á ítalska þingið þar sem á þeim tíma var hún ein af þekktustu klámmyndastjörnum Ítalíu, lék m.a. á móti John Holmes í myndinni The Rise and Fall of the Roman Empress. Hún notaði ýmsar brellur til að vekja athygli á sér í kosningabaráttunni, t.d. beraði hún á sér brjóstin, fyrst kvenna, í beinni útsendingu í ítalska sjónvarpinu og hljóðritaði lag sem fjallaði eingöngu um kynfæri karlmanna. Eftir að hún var kjörin þingmaður þá beitti hún sér nær eingöngu að málum sem tengdust kynlífi á einhvern hátt en hún lagði fram heil 12 frumvörp en ekkert af þeim varð að lögum, t.d. lagði hún fram frumvarp að það yrðu opnaðir ástargarðar og ástarhótel sem styrkt yrðu af ítalska ríkinu.

Árið 2002 bauð hún sig fram til borgarstjóra í ítölskun borginni Monza og lofaði í kosningabaráttunni að breyta einni mest áberandi byggingu borgarinnar í spilavíti ef hún myndi ná kjöri. Af því varð nú ekki þara sem hún náði einungis fáeinum atkvæðum í þeim kosningum, kannski svipað og Þjóðfylkingin fékk á Íslandi í síðustu alþingiskosningum.

Í seinni tíð hefur hún vakið athygli fyrir ýmis ummæli, t.d. bauð hún Saddam Hussein, fyrrum Íraksforseta, blíðu sína í skiptum fyrir frið á jörð. Hún bauðst einnig til að láta virkilega vel að Osama Bin Laden gegn því að hann myndi hætta allri hryðjuverkastarfsemi. En Cicciolina sagði eitt sinn að kynlíf og fullnæging gætu leyst öll vandamál þessa heims.

Cicciolina hélt upp á 60 ára afmælið sitt á árinu 2011 og hóf þá að fá eftirlaun frá ítalska ríkinu fyrir störf sín sem þingmaður. Greiðslurnar eru 39.000 evrur á ári sem gera u.þ.b. 4,7 milljónir króna. Þrátt fyrir að fjölmargir mótmæltu þessum til hennar þá lét hún hafa eftir sér „Ég vann mér þetta inn og ég er stolt af því“.

Það er í sjálfu sér margt líkt með hennar ferli og margra listamanna þar sem mörkin á milli gjörningalistar og lágkúru eru ekki alltaf ljós. Það er svo sannarlega ekki á hreinu hvernig sagan muni dæma feril Cicciolina sem stjórnmálamanns, tilvonandi borgarstjóra, söngkonu og síðast en ekki síst klámmyndastjörnu.
0 Comments

SOPHIA LOREN - BER ALLAN ALDUR ÓAÐFINNANLEGA

10/26/2016

0 Comments

 
Sophia Loren fæddist í Rómarborg þann 20. september 1934 en fæðingarnafn hennar er Sofia Villani Scicolone. Móðir hennar, Romilda Villani, var píanókennari en langaði alltaf til að verða leikkona. Faðir Sophiu Loren, Riccardo Scicolone, neitaði að giftast móður hennar og yfirgaf þær mæðgur. Þrátt fyrir það eignuðist Sophia Loren alsystur fjórum árum síðar, Anna Maria Scicolone, en áfram neitaði Riccardo Scicolone að taka á nokkurn hátt þátt í uppeldi dætra sinnar og veitti þeim engan fjárhagslegan stuðning.
Picture
Í mikilli neyð ákvað Romalda Villani að flytja með dætur sínar til móður sinnar sem bjó í smábænum Pozzuoli, nálægt borginni Napoli, þar sem Sophia Loren átti eftir að alast upp í töluverðri fátækt. Bærinn Pozzuoli var ekki öruggur staður í seinni heimstyrjöldinni og eftir að Sophia slasast eftir að hafa lent í árás fluttust mæðgurnar til Napoli þar sem þau dvöldust þar til stríðinu lauk. Eftir stríðið snéru þær aftur til Pozzuoli. Það voru erfiðir tímar eftir að stríðinu lauk, mikil fátækt og fólk þurfti virkilega að bjarga sér. Amma Sophiu Loren bjo til dúndur kirsuberjalíkjör í eldhúsinu sínu og opnaði bar í stofunni hjá sér. Romilda, móðir Sophiu, spilaði á píanóið, Anna Maria söngá meðan Sophia lék þjónustustulku og sá um uppvaskið. Þessi óhefðbundni bar varð mjög vinsæll meðal bandarískra hermanna sem bjargaði algjörlega fjárhagstöðu fátæku fjölskyldunnar í smábænum Pozzuoli.

Þegar Sophia var fjórtán ára gömul fór allt einhvern veginn að ganga betur. Hún tók þátt í fegurðarsamkeppni í Napólí þar sem hún lenti í öðru sæti og í kjölfarið fór hún í leiklistartíma og fór að fá ýmis aukahlutverk í kvikmyndum. Hún klófesti fyrsta aðalhlutverkið sitt árið 1953, í kvikmyndinni Aida, en hún hafði árið áður breytt nafninu sínu í Sophia Loren. Hún fékk mikið lof fyrir leik sinn í myndinni og í kjölfarið var þessi óþekkta stúlka þekkt út um gjörvalla Ítalíu. Á næstu árum lék hún mörgum kvikmyndum, sérstaklega ítölskum gamanmyndum. Árið 1957 lék hún í sinni fyrstu mynd á ensku þar sem hún lék á móti Gary Grant og Frank Sinatra í kvikmyndinni Pride and Passion sem tekin var upp í París. Sophia Loren leikið í ótal kvikmyndum, bæði á ítölsku, frönsku og ensku, t.d. lék hún Boy on a Dolphin þar sem lék á móti Alan Ladd, Legend of the Lost á móti John Wayne, It Started in Naples á móti Clark Caple og El Cid á móti Charlton Heston og á móti Gary Grant í kvikmyndinni Houseboat.
Sophia Loren átti í ástarsambandi við leikarann Gary Grant á meðan á tökum kvikmyndarinnar The Pride and the Passion stóð yfir árið 1957. Gary Grant var mjög ástfanginn af Sophiu Loren og útvegaði henni aðalhlutverkið í kvikmyndinni Houseboat sem þáverandi eiginkonu Gary Grant hafði verið lofað. Ástarsambandi þeirra lauk áður en tökum á myndinni Houseboat lauk sem olli miklum vandræðum við að klára að taka upp myndina.
Sophia Loren giftist ítalska kvikmyndaframleiðandanum, Carlo Ponti, árið 1957 en þau höfðu fyrst hist árið 1950 þegar hún var sextán ára en hann 22 árum eldri. Að vísu var giftingin ógild árið 1962 þar sem ítölsk stjórnvöld höfðu ekki samþykkt skilnað Carlo Ponti við fyrrum eiginkonu sína. Þau gengu í hjónaband á nýjan leik í Frakklandi árið 1966 og voru gift allt þar til hann dó árið 2007. Hjónaband þeirra varð farsælt, þau eignuðust börn og náðu að mestu leyti að halda einkalífi sínu fyrir utan fá fjölmiðlanna.
Sophia loren hefur verið búsett í Genf uindanfarin áratug en á jafnframt hús í Napólí og Róm. síðasta kvikmyndin sem hún lék í var Nine árið 2009 en þar lék hún á móti Daniel Day-Lewis, Penelope Cruz og Kate Hudson. Á ferlinu hefur unnið til Óskarsverðlauna, Grammy-verðlauna og fimm Golden Globe-verðlauna svo fátt eitt sé nefnt.
0 Comments

FRANCESCO TOTTI - einn ástsælasti sonur Rómarborgar

9/27/2016

0 Comments

 
Francesco Totti fæddist í Róm 27. september 1976. Hann varð fljótt mjög áhugasamur um knattspyrnu, spilaði bolta frá morgni til kvölds, oftast við krakka sem voru töluvert eldri en hann sjálfur. Átrúnaðargoð hans á þessum árum var fyrrum ítalski landsliðsmaðurinn, Giuseppe Giannini. Hann hóf að spila með hverfisliðinu 8 ára gamall og skömmu síðar fóru njósnarar að fylgjast með honum. Foreldrar hans fengu m.a. gylliboð frá AC Milan sem þau neituðu þar sem þau töldu hann vera of ungan til að fara að heiman. Hann gekk síðar til liðs við unglingalið AS Roma árið 1989 og hefur aldrei litið til baka.
Picture
Eftir að hafa spilað með AS Roma allan sinn feril þá er Francesco Totti bæði markahæsti leikmaður félagsins og leikjahæsti leikmaður þess allra tíma. Hann er álitinn besti leikmaður AS Roma frá upphafi og einn besti leikmaður sinnar kynslóðar í heiminum. Francesco Totti er einn af þessum sárafáum leikmönnum sem spiluðu allan sinn feril hjá uppeldisfélagi sínu sem setur hann í flokk með leikmönnum á borð við Paolo Maldini, Franco Baresi og Giuseppe Bergomi.

Francesco Totti hefur mest spilað í frjálsu hlutverki í holunni fyrir aftan framherjanna en fyrir framan miðjumennina. Þessi staða kallast á Ítalíu „trequartista“ og í gegnum tíðina hefur skapast sú hefð að sá leikmaður hefur oftast borið treyjunúmerið 10 og þar er Totti engin undantekning.

Á löngum ferli hefur Totti unnið til marga titla og unnið til margra verlauna á sínum langa og þó nokkuð sigursæla ferli, m.a. var hann heimsmeistari með ítalska landsliðinu árinu 2006, vann ítalska meistaratitilinn með AS Roma árið 2001 og ítölsku bikarkeppnina árin 2007 og 2008.

Francesco Totti er mikill fjölskyldumaður, giftur fyrrverandi fyrirsætunni Ilary Blasi og eiga þau saman þrjú börn.
Francesco Totti er einn ástsælasti sonur Rómarborgar og mun ávalt verða talinn goðsögn hjá stuðningsmönnum AS Roma um ókomna tíð.
0 Comments

Frumskógur ítalskra kaffidrykkja - espressó er ekki bara espressó

8/28/2016

0 Comments

 
Kaffihefðin er rík og rótgróin í ítalskri menningu og fullkominn espresso mikilvægur þáttur í daglegu lífi Ítala. Margir Ítalir kíkja á barinn á leið til vinnu á morgnana og fá sér einn espressó. En kaffi er ekki bara kaffi því útfærslurnar af hinu venjulega espressó eru ótal margar. Hér fyrir neðan verður fjallað um helstu útfærslurnar af hinu fullkomna skoti af espressó.
Picture
Caffé
Espressó er einfaldlega kallaður “Caffé” á Ítalíu eða “Caffé normale”. Espressó er ávallt borinn fram í litlum postulínsbolla, kallaður Demitasse, með undirskál og lítilli skeið. Caffé er oftast drukkið með miklum sykri en það er náttúrulega smekksatriði.
 
Caffé lungo
Caffé Lungo þýðir náttúrulega „langur kaffi“Þegar beðið er um Caffé Lungo þá er meira vatn látið renna gegnum möluðu kaffibaunirnar. Þannig ef þú vilt fá kaffibolla sem ekki er alveg eins sterkur og espressó þá skaltu biðja um Caffé Lungo. Það er einhvern veginn svalara að biðja um Caffé Lungo heldur en Caffé Americano sem fjallað er um síðar.

Caffé doppio
Tvöfaldur espressó, stundum borinn fram í cappuccinobolla sem kallaður er Tazza.

Caffé Macchiato
Caffé Macchiato er espressoskot með smá slettu af flóaðri og freyddri mjólk. Í Caffé Macchiato er smá mjólk bætt út í skoti af espressó en í Latté Macchiato er espressoskot bætt út í mjólkina.

Caffé Latté
Caffé Latté er mjög vinsæll drykkur á meðal ferðamanna á Ítalíu. Caffé Latté er espressóskot með mikill flóaðri mjólk og smá froðu á toppnum, stundum borið fram í háu glasi.

Caffé Marocchino
Þessi er minn uppáhalds óáfengi kaffidrykkur. Hérna er espressó settur í lítið glas, síðan er kakóduft stráð yfir, svo kemur sletta af flóaðri mjólk og loks er kakódufti stráð yfir á nýjan leik.

Caffé Corretto
Caffé Corretto er espressó með slettu af líkjör af eigin vali. Margir Ítalir vilja fá grappa en aðrir vinsælir líkjörar eru koníak, romm, sambuca, Grand Marnier og Baileys. Ég fæ mér oftast Caffé Coretto al Grand Marnier.

Caffé Americano
Caffé Americano er espressó með heitu vatni og borinn fram í cappucino-bolla. Þetta er það næsta sem við komust til þess að fá venjulega uppáhelling en á Ítalíu er hvergi hægt að finna þessar hefðbundnu kaffivélar sem við þekkjum svo vel hér á landi.

Caffé Freddo
Caffé Freddo er eins og nafnið gefur til kynna espressó sem látinn er kólna, og stundum er hann settur inn í ískáp og borinn fram kaldur eða volgur.

Caffé Stretto eða Caffé Ristretto
Caffé Ristretto er fyrir þá sem vilja enn sterkari espressó en þá er látið renna enn minna vatn í gegnum möluðu kaffibaunirnar. Eftir því sem þú ferð sunnar á Ítalíu verður kaffið sterkara. Caffé Ristretto er minna magn af kaffi en þar sem vatnið er látið renna mjög lítið í gegnum möluðu baunirnar þá verður það ekki eins biturt.

Caffé Completo
Hérna erum við að tala um einfaldan espresso með þeyttum rjóma og smá kakódufti stráð yfir.

Caffé Shakerato
Hérna er espressó settu ásamt klökum í blandara og þessu hrist saman góða stund áður en drykkurinn er borinn fram í martini-glasi.

Latté Macchiato
Latté Macchiato er mikið af flóaðri mjólk með espressóskoti, svona rétt til að lita mjólkina. Í Latté Macchiato er espressóskoti sett út í mjólkina en í Caffé Macchiato er smá mjólk bætt út í skoti af espresso.
 
Hérna í lokin kemur myndband eftir Bruno Bozzetti sem sýnir fjölbreytni ítalskrar kaffimenningar á skemmtilegan hátt
0 Comments
<<Previous
    Picture
© 2013 Minitalia.is - Allur réttur áskilinn - [email protected]