Á aðfararnótt þrettándans kemur nornin Befana fljúgandi á kústskafti sínu, smeygir sig niður um skorsteina og skilur eftir gjafir í jólasokkum barnanna.
Þrettándinn sem kallast á ítölsku Epifania di Nostro Signore er dagurinn þegar Jesúbarnið opinberaðist vitringunum þremur. Sagan segir að nornin Befana hafi fengið fréttir af fæðingu Jesúbarnsins frá vitringunum þremur sem voru á leið sinni til að gefa jesúbarninu gull, reykelsi og myrru. Vitringarnir buðu Befana að slást í hópinn en hún sagðist ekki geta komist með þar sem hún væri svo upptekin við húsverkin. Stuttu síðar skipti Befana um skoðun en þrátt fyrir mikla leit hafði hún ekki upp á vitringunum þremur á nýjan leik. En síðan þá hefur hún reikað um í stöðugri leit að Jesúbarninu og skilur eftir gjafir hjá hverju sofandi barni sem verður á vegi hennar, í þeirri von að um sé að ræða sjálfan Jesús Krist. Hún klifrar niður skorsteina á aðfararnótt þrettándans og gefur góðu börnunum sælgæti og ávexti en óþekku börnin fá einungis svört kol, lauk eða jafnvel hvítlauk.