Nú þegar líður að áramótum er ekki seinna vænna en að birgja sig upp af freyðivíni, ekkert er skemmtilegra en að skála í góðra vina hópi þegar nýtt ár gengur í garð. Frá Ítalíu koma freyðivín á borð við Prosecco frá héruðunum Veneto og Friuli Venezia Giulia, Moscato d‘Asti og Asti Spumante frá Piemonte og ennfremur koma virkilega góð freyðivín héruðunum Trentino og Lombardia.
Frá Veneto koma að auki létt og ávaxtarík freyðivín sem kallast Prosecco, framleitt úr samnefndri þrúgu sem stundum gengur undir nafninu Glera. Þetta geta verið virkilega góð freyðivín á viðráðanlegu verði sem eru tilvalin til að skála í við góð tækifæri. Það er hægt að nálgast þónokkurt úrval af Prosecco-vínum hér á landi, t.d. Leonardo Prosecco Extra Dry (kr. 1.999), Valdo Prosecco Treviso Extra Dry (kr.2.574) og Villa Sandi Millesimato Valdobbiadene (kr.2.595).
Í nágrenni bæjarins Asti í Piemonte eru framleidd freyðivín úr þrúgunni Moscato. Hér erum við annars vegar að tala um Moscato d’Asti og hins vegar Asti Spumante. Þetta eru sæt og ávaxtarík vín með ferskleikann í fyrirrúmi, oftast drukkin ísköld við hin ýmsu tækifæri þegar á að skála, t.d. þegar fagna skal nýju ári. Hér erum við að tala um vín á borð við Santero Moscato (kr.1.150) og Villa Jolanda Moscato Rose Dolce (kr. 1.595), Gancia Asti (kr.1.699) og Martini Asti (kr. 1.699).
Mörg af bestu og dýrustu freyðivínum koma frá héraðinu Lombardia, nánar tiltekið frá svæðinu Franciacorta. En þar eru framleidd DOCG-freyðivín með kampavínsaðferðinni sem af mörgum eru talin bestu freyðivín Ítalíu, gerð úr þrúgunum Chardonnay, Pinot Blanc, Pinot Noir og Pinot Gris. Í vínbúð allra landsmanna er hægt að nálgast tvö vín frá þessu svæði, annars vegar Barone Pizzini Nature Franciacorte (kr.4.980) og hins vegar Barone Pizzini Animante Franciacorte (kr. 4.670).
Ekki er hægt að fjalla um ítölsk freyðivín án þess að nefna Ferrari frá héraðinu Trentino sem er einn allra virtasti og að margra mati besti framleiðandi freyðivína á Ítalíu. Við erum svo heppin að í vínbúðinni er hægt að nálgast flaggskip þessa fræga vínhúss, Ferrari Maximum Brut (kr.4.695).
Nú er ekkert annað eftir en að gera upp hug sinn, drífa sig út í næstu vínbúð og birgja sig upp af veigum fyrir komandi áramót.
Nú er ekkert annað eftir en að gera upp hug sinn, drífa sig út í næstu vínbúð og birgja sig upp af veigum fyrir komandi áramót.