Einn virtasti og að margra mati allra besti framleiðandi freyðivína á Ítalíu er Ferrari frá héraðinu Trentino á Norður-Ítalíu. Vínhúsið var stofnað af Giulio Ferrari árið 1902 og hafa öll vín sem það hefur sett á markað verið framleidd með svokallaðri kampavínsaðferð, „metodo classico“, sem byggist á því að gerjunin á sér stað einvörðungu á flösku. Hann hafði kynnst kampavínframleiðslu í Epernay í Frakklandi og var fullviss um að þrúgan Chardonnay myndi sóma sér vel í heimahéraðinu hans, Trentino á Ítalíu.
Árið 1952 var Giulio Ferrari orðinn fimmtugur, barnlaus og nokkuð lúinn á mikilli vinnu við uppbyggingu vínhússins. Á þeim tímapunkti ákvað hann að láta vínhúsið í hendurnar á Bruno Lunelli, sérstaklega vegna þess að hann átti fimm börn og Giulio var þess fullviss að vínhúsið yrði í öruggum höndum þeirrar fjölskyldu um ókomna framtíð. Giulio Ferrari hafði svo sannarlega rétt fyrir sér því vínhúsið hefur haldið áfram að vaxa og dafna til dagsins í dag.
Við erum svo heppin að eiga kost á því að nálgast flagskip Ferrari-vínhússins, Ferrari Maximum Brut (kr.4.695), í vínbúð allra landsmanna. Þetta tæra og ferska freyðivín er virkilega gott og gefur kampavínunum frá Frakklandi ekkert eftir.
Við erum svo heppin að eiga kost á því að nálgast flagskip Ferrari-vínhússins, Ferrari Maximum Brut (kr.4.695), í vínbúð allra landsmanna. Þetta tæra og ferska freyðivín er virkilega gott og gefur kampavínunum frá Frakklandi ekkert eftir.