MINITALIA
  • HEIM
  • HÉRUÐ ÍTALÍU
    • ABRUZZO
    • BASILICATA
    • CALABRÍA
    • CAMPANÍA
    • EMILIA - ROMAGNA
    • FRIULI - VENEZIA GIULIA
    • LAZIO
    • LÍGÚRÍA
    • LOMBARDÍA
    • MARCHE
    • MOLISE
    • PIEMONTE
    • PUGLIA
    • SARDINÍA
    • SIKILEY
    • TOSKANA
    • TRENTINO - ALTO ADIGE
    • ÚMBRÍA
    • VALLE D'AOSTA
    • VENETO
  • MATUR
    • FORRÉTTIR
    • PASTA
    • RISOTTÓ
    • PIZZUR
    • AÐALRÉTTIR
    • EFTIRRÉTTIR
    • BRAUÐ OG KÖKUR
    • SÓSUR OG PESTÓ
  • VÍN
    • VÍNHÉRUÐ ÍTALÍU >
      • SIKILEY
      • PIEMONTE
      • TOSKANA
      • ÚMBRÍA
      • VENETO
    • RAUÐVÍN
    • HVÍTVÍN
    • KOKTEILAR
  • FERÐALAGIÐ
    • AMALFÍ
    • BERGAMO
    • BOLOGNA
    • CAPRI
    • CINQUE TERRE
    • FENEYJAR
    • FLÓRENS
    • GENÓA
    • LUCCA
    • MINORI
    • MÍLANÓ
    • PARMA
    • PISA
    • PORTOFINO
    • POSITANO
    • RAVELLO
    • SAN GIMIGNANO
    • SAN REMO
    • SIENA
    • TÓRÍNÓ
    • TRIESTE
    • VERONA
    • VIAREGGIO
  • LÍFSTÍLLINN
  • UM OKKUR

RISOTTÓ MEÐ BEIKONI OG SAFFRAN - þessi slær alltaf í gegn

10/4/2021

0 Comments

 
Risottó með beikoni og saffran er frábær réttur þar sem beikonið spilar lykilhlutverkið ásamt því að saffranið kemur með skemmtilegt tvist í lokin. Hér erum við að tala um æðislegan rétt sem er allt í senn bragðgóður, fljótlegur og einfaldur. Réttur sem gengur fullkomlega upp!!!

Risottóið kemur frá Norður-Ítalíu, þ.e. frá héruðunum Veneto, Lombardía, Piemonte og Emilia-Romagna en hrísgrjón er helst ræktuð á þeim slóðum. Það er algjörlega lífsnauðsynlegt að nota hrísgrjón af gerðinni arborio eða carnaroli þar sem þau eru sterkjurík og gefa réttu rjómakenndu áferðina. Hrísgrjón af gerðinni arborio og carnaroli eru bæði styttri og þykkari en þau hísgrjón sem við eigum að venjast frá degi til dags.

Það er tiltölulega auðvelt að búa til gott risottó en lykilatriðið er að fara ekki frá pottunum. Það eru óendanlega mörg afbrigði til af þessum dásamlega rétti þótt aðferðin sé ávallt að stærstum hluta sú sama.
Picture

Hráefni
1) 400 gr arborio grjón 2) 150 gr beikon 3) 1 stk laukur 4) 1/2 tsk saffranþræðir 5) 100 gr smjör 6) 100 gr parmesan 7) ólífuolía 8) 1-1,5 líter grænmetissoð

Aðferð
1) Hitið ólífuolíu á góðri pönnu. 2) Skerið beikonið í litla bita og látið það malla á pönnunni þar til fitan er orðin glær. Leggið til hliðar þar til síðar. 3) Skerið laukinn smátt, hitið ólífuolíu í stórum potti og steikið laukinn í smjörinu á lágum hita þar sem laukurinn má ekki verða brúnn, einungis mjúkur.
SKREF 1
SKREF 2
SKREF 3
4-5) Bætið grjónunum út í pottinn, hækkið hitann og steikið grjónin í ca. 2 mínútur. 6) Nú er farið að bæta soðinu út í pottinn smátt og smátt, alls ekki of mikið í einu. Núna eru ca. 18 mínútur eftir af eldunartímanum.
SKREF 4
SKREF 5
SKREF 6
7-8) Þegar fimm mínútur eru eftir af eldunartímanum er beikonbitunum bætt út í grjónin og blandað vel saman. 9) Síðan er saffranþráðunum bætt út í pottinn en gott er að bæta út í smá soði um leið til að þræðirnir leysist auðveldlega upp. Haldið er áfram að bæta við soði út eldunartímann.
SKREF 7
SKREF 8
SKREF 9
10) Þegar grjónin eru tilbúin eru þau tekin af hitanum og smjörstykkinu bætt út í pottinn. 11) Að lokum er ostinum bætt við 12) og öllu hrært vel saman.
SKREF 10
SKREF 11
SKREF 12

Meða þessum rétti mælir MINITALIA með Santa Cristina IGT 2018

Picture
Vínið sem hér um ræðir, Santa Cristina IGT, kom fyrst á markað árið 1946. Í upphafi var þetta vín skilgreint sem Chianti Classico en frá árinu 1987 var það fyrst skilgreint sem Vino da Tavola en síðan sem IGT en sá flokkur kom til sögunnar árið 1992 í þeim tilgangi að auka frelsi í ítalskri víngerð.

​
Santa Cristina Toscana IGT 2018 er framleitt mestmegnis úr þrúgunni Sangiovese en að auki er að finna í litlu magni þrúgurnar Cabernet Sauvignon, Syrah og Merlot. Vínið er látið þroskast til helminga á stáltönkum annars vegar og hins vegar eikartunnum þar sem það fær að þroskast í 6 mánuði.

Þetta rúbínrauða vín tekur á móti manni með miklum angan af dökkum berjum, t.d. sólberjum og kirsuberjum, að auki örlar á eik, jörð og jafnvel lyngi. Í munni er vínið ávaxtaríkt, t.d. er þar að finna kirsuber, hindber og sólber. Hér er um að ræða vín í góðu jafnvægi með mjúkum tannínum, flottri sýru, góðri fyllingu og þó nokkru eftirbragði.

Santa Cristina IGT 2018 fær fjórar stjörnur - MJÖG GÓÐ KAUP á þessu verði, kr. 2.398.​

0 Comments

CANTUCCI - himneskar smákökur, beint frá hjarta Toskana

9/20/2018

0 Comments

 
Cantucci eru heimsfrægar smákökur, upprunnar frá borginni Prato í hjarta Toskana. Þessar ílöngu smákökur eru oft ranglega kallaðar „biscotti“ hér á landi sem þýðir einfaldlega„tvíbakaðar“ og er lýsandi fyrir bökunaraðferðina, þ.e. að þær eru settar tvisvar inn í ofninn. Þessar smákökur hafa þann kost að þær geymast lengi og því tilvalið að eiga ávallt nóg af þeim þegar góða gesti bera að garði.

Á Ítalíu er hefð fyrir því að fá sér Cantucci ásamt glasi af Vin Santo sem er sætt eftirréttavín, upprunnið frá Toskana. Að auki hefur skapast sú hefð, sérstaklega fyrir utan Ítalíu, að gæða sér á Cantucci með góðum kaffibolla.

Hér er um að ræða uppskrift sem er mjög nálægt þeirri upprunalegu frá Prato í Toscana. En með tíð og tíma hafa orðið til ýmsar útfærslur af þessum dásamlegu kökum, t.d. með því að bragðbæta þær með anís, sítrónu- eða appelsínuberki, rúsínum, súkkulaði eða þurrkuðum ávöxtum. Allt er leyfilegt og einungis ímyndunaraflið sem setur manni einhverjar skorður.

Picture
Hráefni
1) 4 egg plús ein eggjarauða 2) 500 gr hveiti 3) 280 gr sykur 4) 100 gr smjör 5) 4 gr lyftiduft 6) 250 gr möndlur 6) Ögn af salti 7) Eitt egg til að pensla yfir deigið áður en það fer inn í ofninn.


Aðferð
1) Hitið ofninn í 190 gráður, setjið möndlurnar á ofnplötu og setjið inn í ofn í 3-4 mínútur. 2) Setjið sykurinn í skál 3) ásamt eggjunum og hrærið þetta saman í hrærivél ásamt ögn af salti. Ef þið viljið setja út í þetta börk af sítrónu eða appelsínu þá gerið það á þessu tímapunkti. 4) Bræðið smjörið í litlum potti, bætið því saman við blönduna góðu. Hrærið þetta saman ögn lengur.
 5) Bætið hveitinu smám saman við blönduna ásamt lyftiduftinu 6) og hrærið þessu vel saman. 7) Að þessu loknu eru möndlunum bætt saman við. 8) Deigið er í eðli sínu blautt og nokkuð klístrað þannig að það er gott að strá smá hveiti yfir deigið til að gera það ögn meðfærilegra.
9) Takið ofnplötu með bökunarpappír og myndið 2-3 lengjur úr deiginu, c.a. 5-8 cm á breidd og 2-3 cm á hæð. Allt spurning hversu stórar maður vill hafa kökurnar. 10) Pískið saman fimmta egginu og penslið því yfir lengjurnar. Setjið svo plötuna inn í 190 gráðu heitan ofn og bakið í u.þ.b. 18-20 mínútur. 11) Skerið nú lengjurnar í c.a. 1,5-2 cm breiða bita með vel beittum hníf. 12) Leggið kökurnar á hliðina og raðið þeim aftur á plötuna. Setjið kökurnar inn í 170 gráðu heitan ofn og bakið í u.þ.b. 12-15 mínútur eða þangað til þær eru u.þ.b. að fara að taka lit. Takið kökurnar úr ofninum og leyfið þeim að standa í smá stund áður en þeirra neytt.
Njótið þessara lystisemda til hins ýtrasta þegar góða gesti ber að garði Þessar steinliggja bæði með kaffibollanum eða nokkrum tárum af Vin Santo.
0 Comments

SPAGHETTI ALLA CARBONARA - einn allra besti pastaréttur veraldar!!!

9/18/2018

0 Comments

 
Spaghetti alla Carbonara, eða spaghettí kolagerðarmannsins, er vinsæll réttur upprunninn frá héraðinu Lazio, nánar tiltekið Róm. Þenna dásamlega rétt má finna á næstum hverju einasta ítalska veitingahúsi um gjörvalla heimsbyggðina. Réttinn má finna í ótal útgáfum en þessi rígheldur sig við upprunan sem oftast er nú bestur.

Spaghetti Carbonara er fljótlegur réttur sem aðalhráefnin eru egg, beikon og ostur ásamt vænum skammti af spaghetti. En sagan segir að rétturinn hafi verið fundinn upp fyrir kolagerðarmenn sem staðgóð næring eftir langa og erfiða vinnudaga í skógivöxnum hlíðum Appennínafjalla.
Picture
Hráefni handa 4-5
1) 500 gr spaghetti 2) 5 egg 3) 1 msk ólífuolía 4) 25 gr smjör 5) 200 gr beikon 6) 100 gr parmesan og/eða pecorino romano  7) salt 8) svartur pipar

Aðferð
1) Þeytið  eggin saman í skál ásamt helmingnum af parmesanostinum og ögn af salti. 2) Hitið olíu og smjör í stórum potti, setjið beikonið út í í litlum bitum og látið það malla hægt þar til fitan er orðin glær. 3) Sjóðið pastað, farið eftir leiðbeiningunum á pakkanum og ofsjóðið það ekki. 4) Látið renna af pastanu, setjið það út í pottinn með beikoninu og hrærið vel saman. 5) Takið pottinn af hitanum, bætið eggjablöndunni saman við og hrærið þar til hver ræma af pasta er þakin gulri sósu. Gott er að bæta við smá pastavatni eftir þörfum 6) Bætið nú við afganginum af ostinum, piprið eftir smekk og berið réttinn strax fram.

Með þessum réttir mælir MINITALIA með Villa Antinori  IGT 2014

Picture
Vínhúsið Marchesi Aninori er einn stærsti og virtasti vínframleiðandi Ítalíu í dag en sögu þess má rekja allt aftur til ársins 1385. Á áttunda áratug síðustu aldar spilaði Marchesi Antinori stóran þátt í „Super-Tuscan“byltingunni og kom fram með vín á borð við Tignanello, Solaia og Guado al Tasso.

Villa Antinori IGT fellur í þennan flokk en það er 55% framleitt úr Sangiovese, 25% úr Cabernet Sauvignon, 15% úr Merlot og 5% úr Syrah. Þetta vín kom fyrst á markað árið 1928 og var þá flokkað sem Chianti Classico. Á árinu 2001 breytti Piero Antinori, núverandi stjórnandi vínhússins, þeim þrúgum sem notaðar eru í þetta vín og samsetningu þeirra. Það var til þess að í dag er það flokkað sem IGT en ekki Chianti Classico DOCG.

Þetta rúbínrauða vín tekur á móti manni með angan af þroskuðum ávexti, kirsuber, sólber og trönuber, tóbak, kaffi og leður. Flottur karakter í góðu jafnvægi, silkimjúk með góðri fyllingu. Fersk sýra, tiltölulega mjúk tannín.

0 Comments

PIZZA CAPRICCIOSA - pizza sem býr yfir einhverjum óútskýranlegum töfrum...

8/31/2018

0 Comments

 
Pizza Capricciosa er ein af þessu klassísku pizzum sem hægt að finna á öllum betri pizzeríum á Ítalíu. Ómótstæðileg pizza þar sem ólík áleggin ganga saman í fullkomnum takti, hvort sem við erum að tala um hráskinkuna, ætisþistlana, sveppina eða svörtu ólífurnar. Þessa má líka finna með venjulegri skinku og stundum er bætt við harðsoðnu eggi, skornu í sneiðar. Pizza Capricciosa er dásamleg pizza þar sem einhverjir óútskýranlegir töfrar gera upplifunina ógleymanlega.
Picture
Hráefni
1) Pizzadeig, uppskrift hægt að sjá hér. 2) Pizzasósa, uppskrift hægt að sjá hér. 3) mozzarella 4) ætisþistlar 5) Svartar ólífur 6) hráskinka 7) sveppir 8) ólífuolía

Aðferð
1) Fletjið út pizzudeigið 2) Setjið passlegt magn af pizzasósunni á botninn. 3) Dreifið mozzarellaosti yfir sósuna. 4) Setjið síðan öll áleggin á pizzuna nema hráskinkuna; fyrst ætisþistlana, síðan sveppina og loks svörtu ólífurnar. 5) Hellið smá slettu af ólífuolíu yfir pizzuna áður en þið setjið pizzuna inn í brennandi heitan ofninn. 6) Bakið þar til botninn er orðinn stökkur, osturinn bráðinn og pizzan lítur einfaldlega stórkostlega út. 7) Takið þá pizzuna úr ofninum, leggið hráskinkusneiðarnar yfir pizzuna og berið hana strax fram.

Gott er að notast við pizzustein, hvort sem pizzan er bökuð í ofni eða á útigrillinu. En þar sem ofnar, grill  og pizzusteinar eru mismunandi að gerð og virkni þá er einfaldlega erfitt að gefa upp nákvæman bökunartíma. Svo best er að fylgjast vel með pizzunni í ofninum eða á grillinu, prófa sig áfram og ná með tímanum fullkomnun, hver við sínar aðstæður.

Pizzur eru yndislegt fyrirbæri og verða ennþá betri ef þeirra er notið í góðum félagsskap og jafnvel með glasi af léttu og ávaxtaríku rauðvíni.
0 Comments

PENNE ALL'AMATRICIANA - pastasósurnar verða ekki mikið klassískari!!!

8/23/2018

0 Comments

 
Penne all'amatriciana er einn af klassískari pastaréttum veraldar, eiginlega verða þeir ekkert mikið klassískari. Rétturinn er uppruninn frá héraðinu Lazio, nánar tiltekið þorpinu Amatrice sem staðsett er ekki langt frá Róm. Uppistaðan í þessum rétti eru tómatar, beikon (á Ítalíu er notað guanciale sem er kinnastykkið á svíninu) og pecorino-ostur.

Það eru ýmsar útgáfur til af þessum rétti, t.d. nota sumir parmesan í stað pecorino, sumir hella smá slettu af hvítvíni eða rauðvíni, aðrir nota mikið af chilli og/eða lauk á meðan aðrir sleppa því alveg og að síðustu er ýmist notað penne í þennan rétt eða spaghetti, bucatini eða jafnvel rigatoni.
Picture
Hráefni
1) 400 gr penne 2) 1 dós af tómötum 3) 200 gr beikon, þykkar sneiðar, skorið í ca. 1 cm þykka bita 4) smá sletta af rauðvíni 5) 1 stk meðalstór chillibelgur 6) 100 gr pecorino romano 7) salt 8) svartur pipar 9) ólífuolía

Aðferð
1) Hitið olíu á stórri pönnu og bætið smáttsöxuðu chilli á pönnuna og 2) bætið síðan beikoninu saman við, piprið duglega og látið þetta malla á lágum hita þar til fitan er orðin glær og beikonið orðið pínulítið stökkt. Bætið þá út í smá slettu af rauðvíni og látið sjóða upp. 3) Bætið út á pönnuna einni dós af tómötum 4) Látið þetta malla áfram í u.þ.b. 15 mínútur.
SKREF 1
SKREF 2
SKREF 3
SKREF 4
5) Sjóðið pastað, farið eftir leiðbeiningunum á pakkanum og ofsjóðið það ekki. Látið renna af pastanu, setjið það út í pottinn með beikoninu og tómötunum, bætið 1-2 matskeiðum af pastasoði út í sósuna og hrærið vel saman. 6) Hellið nýrifnum pecorino-ostinum saman við pastað. 7) Hrærið nú öllu vel saman þannig að sósan verði bæði passlega mikil og passlega þykk. Saltið og piprið eftir þörfum. 8) Berið réttinn strax fram.
SKREF 6
SKREF 7
SKREF 8

Með þessum rétti mælir MINITALIA með Venica Collio Merlot DOC 2013

Picture
Í héraðinu Friuli – Venezia Giulia, rétt við landamærin við Slóveníu og Austurríki, er að finna vínhúsið Venica & Venica sem er nú ögn þekktara fyrir sín dásamlegu hvítvín en framleiðir einnig virkilega flott rauðvín úr frönsku þrúgunum Merlot og Cabernet Franc.

Venica Collio Merlot DOC 2013 er framleitt að öllu leyti úr frönsku þrúgunni Merlot sem barst til héraðsins Friuli-Venizia Giulia árið 1869 og varð fljótt útbreidd um allt héraðið. Allar aðstæðurnar í Friuli-Venezia Giulia ásamt ákjósanlegu hitastigi henta þessari frönsku þrúgu virkilega vel. Vínið er látið þroskast á slóvenskum eikartunnum í 12 mánuði áður en það er tappað á flöskur og sett á markað.

Þetta rauðfjólubláa vín tekur á móti manni með angan af dökkum berjum og  miklum ávexti, t.d. spila plómur, kirsuber og brómber stór hlutverk. Hér er um að ræða virkilega mjúkt og ávaxtaríkt vín með góðri sýru og miðlungstannínum. Flott matarvín.


0 Comments

PIZZA MEÐ NAUTAHAKKI OG BERNAISE - HVER ELSKAR EKKI BERNAISE !!!

8/16/2018

0 Comments

 
Okkur hefur lengi langað til að gera pizzu með bragðsterku nautahakki og bernaisesósu en einhvern veginn aldrei látið verða af því fyrr en núna. Í stuttu máli þá var smakkaðist afraksturinn hreint stórkostlega og mælum við svo sannarlega með því að prófa. Hjá okkur var lykillinn að hafa nautahakkið sterkt og setja ekki sósuna á pizzuna fyrr en eftir að hún kemur út úr ofninum. Mögnuð pizza sem getur hreinlega ekki annað en slegið í gegn.
Picture
Hráefni
1) pizzadeig, uppskrift hægt að sjá hér. 2) pizzasósa, uppskrift hægt að sjá hér. 3) mozzarella 4) nautahakk, ca. 250-300 grömm  5) 1 stk. stór chillibelgur, smátt saxaður 6) 1 stk. hvítlauksrif 7)  ólífuolía 8) bernaisesósa, því meira því betra segja sumir.
 
Aðferð
1) Hitið olíu á stórri pönnu og bætið smáttsöxuðu chilli á pönnuna ásamt hvítlauknum. 2) Bætið því næst nautahakkinu saman við, saltið og piprið eftir þörfum. 3) Steikið nautahakkið þar til það er orðið fullsteikt og leggið til síðan hliðar. 4) Fletjið svo út pizzudeigið. 5) Setjið passlegt magn af pizzasósu á botninn. 6) Dreifið mozzarella yfir sósuna. 7) Hellið smá slettu af ólífuolíu yfir pizzuna áður en þið setjið hana inn í brennandi heitan ofn. 8) Þegar bökunartíminn er rúmlega hálfnaður þá er gott að taka pizzuna út og bæta nautahakkinu yfir og setjið hana strax aftur inn. 9) Bakið þar til botninn er orðinn stökkur, osturinn bráðinn og pizzan lítur einfaldlega stórkostlega út. 10) Takið þá pizzuna úr ofninum, setjið bernaisesósu yfir herlegheitin, allt eftir smekk hvers og eins, og berið strax fram.
 
Gott er að notast við pizzustein, hvort sem pizzan er bökuð í ofni eða á útigrillinu. En þar sem ofnar, grill og pizzusteinar eru mismunandi að gerð og virkni þá er einfaldlega erfitt að gefa upp nákvæman bökunartíma. Svo best er að fylgjast vel með pizzunni í ofninum eða á grillinu, prófa sig áfram og ná með tímanum fullkomnun, hver við sínar aðstæður.
 
Pizzur eru náttúrulega yndislegt fyrirbæri og glas af léttu og ávaxtaríku rauðvíni í hópi góðra vina gera þær einungis yndislegri.
0 Comments

ÍTÖLSK EGGJAKAKA MEÐ KARTÖFLUM, STEINSELJU OG PARMESAN

8/16/2018

0 Comments

 
Frittata, sem þýðir einfaldlega „steiktur“, er ítölsk eggjakaka sem hægt er að útfæra á óendanlega marga vegu, t.d. með ýmsu kjötáleggi, grænmeti og líka allskonar ostum. Hér er um að ræða virkilega góða ítalska eggjaköku með kartöflum, steinselju og parmesan. Hún er einföld í framkvæmd og tilbúin á aðeins 30 mínútum, smellpassar fyrir brönsinn.
Picture
Hráefni handa fjórum
1) 500 gr kartöflur 2) 6 stk egg 3) 1 búnt steinselja 4) 100 gr parmesan 5) 1 stk meðalstór chillibelgur 6) salt 7) pipar 8) ólífuolía

Aðferð
1) Afhýðið kartöflurnar og skerið þær í sneiðar, u.þ.b. 1 cm á breidd. 2) Setjið kartöflurnar út í pott með sjóðandi vatni sem hefur verið saltað lítillega. Látið kartöflurnar sjóða í u.þ.b. 10 mínútur. 3) Setjið 6 egg í góða skál.
SKREF 1
SKREF 2
SKREF 3
4) Bætið helmingnum af ostinum saman við 5) ásamt steinseljunni og pískið þetta saman. 6) Bætið síðan kartöflubitunum saman við og hrærið öllu vel saman.
SKREF 4
SKREF 5
SKREF 6
7) Hitið ólífuolíu á góðri pönnu á miðlungshita ásamt smáttsöxuðu chilli. 8) Bætið blöndunni góðu á pönnuna og látið þetta svo steikjast undir loki í u.þ.b. 10 mínútur. 9) Setjið venjulegan matardisk ofan á eggjakökuna, snúið henni við og láta hina hliðina snúa niður.
SKREF 7
SKREF 8
SKREF 9
10) Látum eggjakökuna steikjast á þessari hlið í u.þ.b. 5 mínútur 11) Tökum þá eggjakökuna af pönnunni og setjum á disk. Stráið hinum helmingnum af ostinum yfir eggjakökuna ásamt smá steinselju og berið hana strax fram.
SKREF 10
SKREF 11
0 Comments

SPAGHETTI ALLO SCARPARIELLO - einföld og fljótleg pastasósa frá Napólí

4/6/2018

0 Comments

 
Nafnið scarpariello kemur frá orðinu „scarparo“ sem þýðir skósmiður á málýsku borgarinnar Napólí. Þessi fljótgerða og tiltölulega einfalda pastasósa er talin hafa hentað skósmiðum borgarinnar fullkomlega  í viðleitni þeirra til þess að töfra fram dýrindis pastasósu á sem allra skemmstum tíma.
 
Aðalhráefnin í sósunni eru tómatar og blanda af ostategundunum parmesan og pecorino romano. Hér er um að ræða ferskan og virkilega bragðgóðan pastarétt sem rífur í og hrífur mann með sér. Ferskir tómatar, basilíka ásamt hvítlauk og góðum slatta af fersku chilli gera þennan rétt að minnistæðu ævintýri.
Picture
Hráefni handa fjórum
1) 400 gr spaghettí 2) 500 gr ferskir litlir tómatar, skornir til helminga. 3) 20 fersk basilíkublöð 4) 35 gr parmesan 5) 35 gr pecorino romano 6) 1 stykki miðlungstór ferskur chillibelgur. 7) 1 stk hvítlauksrif 8) ólífuolía.
 
Aðferð
1) Hitið olíu á stórri pönnu og bætið smáttsöxuðu chilli á pönnuna ásamt heilu hvítlauksrifi. Látið þetta steikjast á miðlungshita á pönnunni í ca. 3 mínútur, hrærið annað slagið. 2) Bætið fersku tómötunum á pönnuna og 3) látið þá malla á miðlungshita í 12-15 mínútur. 4) Takið hvítlauksrifið úr sósunni.
SKREF 1
SKREF 2
SKREF 3
SKREF 4
5) Á meðan sósan er malla þá er gott að sjóða pastað, farið eftir leiðbeiningunum á pakkanum og ofsjóðið það ekki. Látið renna af pastanu, setjið það út í pottinn með tómatssósunni og hrærið vel saman. Haldið smá eftir af pastavatninu. 6) Bætið 1 ausu af pastavatninu út í sósuna og hrærið vel saman. 7) Hellið nýrifnum ostinum, bæði pecorino og parmesan, saman við pastað. Hrærið nú öllu vel saman þannig að sósan verði bæði passlega mikil og passlega þykk. Bætið við smá magni af pastavatni ef þið viljið meiri sósu og jafnvel meira af osti ef þið viljið hafa hana þykkari. 8) Setjið réttinn á diska og berið hann strax fram. Gott er að bera réttinn fram með nýrifnum parmesan og ferskri basilíku.
SKREF 5
SKREF 6
SKREF 7
SKREF 8

Með þessum rétti mælir MINITALIA með Librandi Ciro Rosso DOC 2014

Picture
Þetta stórgóða vín kemur frá vínhúsinu Librandi í héraðinu Calabria sem staðsett er syðst á Ítalíu. Vínhúsið Librandi var stofnað um miðja síðustu öld hefur alla tíð verið er í eigu samnefndrar fjölskyldu sem hefur mikla ástríðu fyrir þeim þrúgum sem eiga uppruna sinn að rekja til héraðsins.

Librandi Ciro Rosso DOC 2014  er framleitt að öllu leyti úr þrúgunni Gaglioppo sem upprunin er frá Calabria og má líkja henni að nokkru leyti við frönsku þrúguna Pinot Noir. Þetta vín er fyrst látið þroskast á stáltönkum til að viðhalda unggæðingslegum karakter þess áður en það er látið þroskast í nokkra mánuði á flösku áður en það er sett á markað.
Ekki láta blekkjast þótt litur þessa víns sé nokkuð ljós, svolítið í anda Pinot Noir, því hér er um að ræða hörkuvín sem svíkur engan. Angan af rauðum ávexti, pínulítið kryddaður, ásamt trönuberjum og plómum. Þroskuð tannín, ágætis fylling, fersk sýra og ljúft eftirbragð. Auðmjúkt og afslappað vín.

Þetta er virkilega gott matarvín sem passar vel með bragðmiklum ítölskum pastaréttum, t.d. Spaghetti allo scarpariello eða Spaghetti alla puttanesca, smellpassar líka með lambakjöti og jafnvel léttri villibráð.

Librandi Ciro Rosso DOC 2014 fær fjórar stjörnur - FRÁBÆR KAUP á þessu verði en flaska af þessu víni kostar einungis kr. 2.295 í vínbúð allra landsmanna.

0 Comments
<<Previous
© 2013 Minitalia.is - Allur réttur áskilinn - kjartan@minitalia.is