Minori er lítið þorp á Amalfi-ströndinni eins og nafn þess gefur til kynna en „minori“ þýðir einmitt „lítill“ á tungumáli innfæddra. Minori er í einugis 3,5 km fjarlægð frá þorpinu Amalfi og í einungis 45 mínútur göngufæri frá Ravello. Minori er vinsæll áfangastaður ferðamanna og þá er hann virkilega vinsæll á meðal Ítala. Minori er einhvern veginn svo ekta, hefur hvorki gleymt rótum sínum né uppruna.
Líkt og stóru grannarnir í Amalfi var Minori öflug skipasmíðamiðstöð hér á öldum áður. Í dag er Minori rólegur, sjarmerandi og pínulítið gamaldags ferðamannastaður. Í Minori er lítil strönd þar sem hægt er að flatmaga undir sólhlíf eða njóta mannlífsins á göngu eftir ströndinni. Í Minori má finna það allra besta í mat og drykk sem Amalfi-ströndin hefur upp á að bjóða. Minori hefur oft verið nefnt Città del Gusto, eða Borg bragðlaukanna, og er sérstaklega þekkt fyrir pastagerð en saga pastagerðar í þorpinu nær allt aftur til miðalda. Endilega að kíkja við á Sal de Riso og gæða sér á fallegri köku eða ómótstæðilegum ítölskum gelato.
Að koma til Minori er líkt og hverfa aftur til gamalla tíma, líkt og stemmingin var á Amalfi-ströndinni fyrir nokkrum áratugum. Í Minori svífur yfir vötnum þessi ekta ítalska stemming sem er svo dásamleg.