Lucca er gullfallegur miðaldabær í héraðinu Toscana, umlukinn gríðarmiklum borgarmúr. Nýtískuleg borgin hefur þanist út fyrir utan borgarmúranna en fyrir innan þeirra hefur allt staðið í stað og allar byggingar, götur og torg í toppstandi. Borgarmúrarnir eru samtals 4.200 metrar að lengd, bæði breiðir og háir. Að utanverðu eru þeir hlaðnir úr múrsteini en að innanverðu eru aflíðandi grasbrekkur þar sem plantað hefur verið trjám, ein tegund á hverri hlið múrsins. Það er bæði áhugavert og ánægjulegt að ganga eftir borgarmúrunum, hringinn í kringum gömlu borgina. Þaðan er útsýnið frábært yfir borgina og áhugaverð sýn á sögulegar byggingar og fallega almenningsgarða.
Lítil umferð er innan borgarmúranna og fara íbúar Lucca mestmegnis ferða sinna á reiðhjólum, vespum eða tveimur jafnfljótum. Víða er hægt að fá að leigja reiðhjól og má segja að það sé besti ferðamátinn um borgina því á reiðhjóli er bæði hægt að skoða miðbæinn ásamt því að hjóla hringinn í kringum borgarmúrana á einum degi.
Frægasti sonur Lucca er án efa tónskáldið Giacomo Puccini. Giacomo Puccini er talinn vera eitt af höfuðtónskáldum ítölsku óperunnar en meðal frægustu verka hans er Tosca, Madame Butterfly og La Boheme. Giacomo Puccini bjó lengi í bænum Torre del Lago, rétt fyrir utan Lucca. Þar byggði hans sér fallegt hús við lítið vatn og í daghefur þar verið opnað safn tileinkað honum sem kallast Villa Puccini Museo. Ennfremur er að finna safn tileinkað Puccini inn í Lucca, í húsinu þar sem skáldið fæddist og ólst upp og heitir Puccini Museum.
Innan borgarmúranna gefur að líta fjölmargar sögulega byggingar, sumar hverjar allt frá 7. öld. Í kringum þessar götur liðast þröngar götur, sneisafullar af verslunum, galleríum, börum, kaffihúsum og veitingastöðum. Aðaltorg Lucca heita annars vegar Piazza San Martino en þar er að finna dómkirkju borgarinnar sem er frá 5. öld, Duomo di San Martino, og hins vegar Piazza dell‘Anfiteatro sem er ávalt torg sem á öldum áður á að hafa verið hringleikahús.
Lucca er falleg og heillandi borg sem býr yfir ótal áhugaverðum stöðum á sama tíma og hún er passlega lítil svo auðvelt er að komast um hana, njóta hennar og upplifa á sem bestan hátt. Þetta er ein af þessum fjölmörgu perlum í Toscana sem er svo sannarlega þess virði að heimsækja.