Feneyjar eru stórbrotnar í allri sinni fegurð, oft kölluð „La Regina dell‘Adriatico“ eða drottning Adríahafsins. Það er hrein upplifun að sigla niður Canale Grande og virða fyrir sér stórhýsi og glæsihallir liðinna tíma, kíkja í kaffi á eitt af aldagömlu kaffihúsunum við Markúsartorg og dást að stórfenglegum byggingum á borð við Markúsarkirkju, Hertogahöllina og klukkuturninn Il Campanile.
Feneyjar eru reistar á 118 smáeyjum og á milli þeirra eru u.þ.b. 180 síki með um 400 brýr sem tengja eyjarnar saman. Flestir ferðast á milli borgarhluta með almenningsbátum, svokölluðum „vaporetti“ þó Feneyjar séu ögn frægari fyrir gondólana sína sem löngum hafa verið ímynd rómantíkur. Hægt er að kaupa ferðakort sem gildir ótakmarkað í almenningsbátana í ákveðinn tíma, hægt er að fá frá dagspassa upp í vikupassa. Á sama stað er einnig hægt að kaupa fyrirfram aðgang m.a. að ýmsum söfnum og kirkjum á Venizia Unica.
Eitt vinsælasta karnival veraldar er haldið árlega í Feneyjum en það var fyrst haldið árið 1162. Litríkir og glæsilegir búningar þátttakenda eru víðfrægir og þá sérstaklega grímurnar sem þátttakendur nota til að hylja andlit sín.
La Biennale di Venezia, eða Feneyjartvíæringurinn, er ein þekktasta hátíð á sviði lista- og arkitektúrs í heiminum en þar á listagyðjan á sviðið á oddaárum en arkitektúr á þeim sléttu. Á Feneyjartvíæringnum 2009 sló Ragnar Kjartansson rækilega í gegn með verkinu The End þar sem hann málaði listamanninn og vin sinn, Pál Hauk Björnsson sem sat fyrir, íklæddur svartri Speedo sundskýlu með bjór við hönd.
Minitalia mælir með að fara til Feneyja að vori eða hausti en forðast þennan svokallaða háannatíma. Sneiðið hjá dagsferðum og bókið eina til tvær nætur á litlu sjarmerandi hóteli í hliðargötu. Njótið sólarupprásar og sólarlags á þessum stórfenglega stað.