Cinque Terre er nafn á fimm þorpum við ströndina vestur af La Spezia. Þorpin fimm bera nöfnin Monterosso al Mare, Vernazza, Corniglia, Manarola og Riomaggiore. Íbúar þorpanna munu vera samtals í kringum 6000 sem flestir starfa við ferðaþjónustu og víngerð þó einhverjir sæki atvinnu til nágrannaborganna La Spezia og Genúa.
Þetta einstaka svæði var gert að þjóðgarði árið 1999 og er ennfremur á heimsminjaskrá UNESCO vegna einstakra menningarminja um líf fyrr á öldum sem einkenndist af fiskveiðum og vínrækt. Þorpin eru byggð í bröttum fjallshlíðum, bílar eru ekki leyfðir en það gengur lest í gegnum þorpin á milli Genoa og La Spezia. Að auki siglir ferja á milli allra þorpanna nema Corniglia en hægt er að taka ferjuna frá gömlu höfninni í Genoa, La Spazia, Lerici eða Portovenere.
Svæðið býr yfir óviðjafnanlegri náttúrufegurð, menningu og sögu. Þorpin virðast hanga utan í hlíðunum við ströndina, fallegar hafnir með litskrúðugum fiskibátum og þröngum götum mynda dásamlega stemmingu. Á milli þorpanna liggur fjöldi göngustíga, ýmist um þverhníptar klettanasir eða um iðagrænar og ávalar hæðir sem þekktar eru vínviði og ólífutrjám.
Stígurinn á milli þorpanna er þekktur undir nafninu Sentiero Azzuro, þ.e. Blái stígurinn. Stígurinn er 10 kílómetra langur, hækkunin á leiðinni er 600 metrar og það tekur u.þ.b. 5 klst. að ganga leiðina. Sá hluti leiðarinnar sem liggur á milli Riomaggiore og Manarola er kallaður Via dell’Amore eða Vegur ástarinnar og er allt frá því að vera létt upp í að vera mjög erfið yfirferðar. Léttasti hluti leiðarinnar liggur á milli Manarola og Corniglia þó síðasti hluti leiðarinnar séu krefjandi 386 þrep. Þó það sé bratt á milli Cornilgia og Vernazza á vissum stöðum þá er svo sannarlega brattast á milli Vernazza og Monterosso al Mare. Þetta eru fallegar gönguleiðir sem liggja bæði um þverhníptar klettanasir eða iðagrænar og ávalar hæðir sem þaktar eru vínviði og ólífutrjám.