Eyjan Capri er sko falleg – svakalega falleg. Það væri svo sannarlega mikil synd að heimsækja Amalfi-ströndina án þess að gera sér ferð út í hina gullfallegu eyju, Capri, sem verið hefur áfangastaður ferðamanna allt frá rómverskum tímum. Þrátt fyrir smæð sína hefur Capri upp á mikið að bjóða en þar eru t.d. hvorki fleiri en færri en tólf kirkjur og sjö söfn ásamt miklum fjölda af merkilegum minnismerkjum.
Það muna náttúrulega allir eftir laginu um Katarínu sem Haukur Morthens gerði óhemju vinsælt á síðustu öld. Ljóðið orti Davíð Stefánsson, kenndur við Fagraskóg, um stúlku sem hann heillaðist af á Capri, eyjunni fögru.
En nú verð ég að kveðja Capri
og Katarínu litlu í dag.
Horfa mun ég út til eyjar
einn um næsta sólarlag.
En nú verð ég að kveðja Capri
og Katarínu litlu í dag.
Horfa mun ég út til eyjar
einn um næsta sólarlag.
Fjölsóttasti áfangastaður eyjarinnar er án vafa Grotta Azzurra sem er gríðarstór hellir sem að stórum hluta er undir yfirborði sjávar. Grotta Azzurra er 60 metrar á lengd og 25 metrar á breidd en einungis er hægt að komast inn í hellirinn þegar sjórinn er stilltur þar sem opið inn í hann er aðeins tveir metrar á breidd og einn meter á hæð. Grotta Azzurra uppgötvaður af erlendum ferðamönnum á nítjándu öld og er nafn hans dregið af lit á sjávarins þegar sólarljósið skín í gegnum hellirinn.
Miðja eyjarinnar, bæði landfræðilega og félagsfræðilega, er hið sjarmerandi torg, Piazza Umberto í bænum Capri sem gengur oft undir nafninu La Piazzetta eða „litla torgið“. Torgið hefur alla tíð verið aðalstaðurinn á Carpi til þess að sýna sig og sjá aðra, allt frá upphafsárum Capri. Ákveðinn upphafspunktur, bæði fyrir innfædda og líka ferðamenn, áður en lengra er haldið. Á eyjunni fögru má finna fjölmarga veitingastaði og kaffihús ásamt fjölda allan af verslunum. Endilega athugið að verðin geta sumstaðar verið í hærri kantinum.
Capri er dásamleg eyja sem allir verða að heimsækja, einhvern tímann um ævina. Eyjan hefur upp á svo óendanlega margt að bjóða, hvort sem við erum að tala um t.d. kokkteil á La Piazzetta, bátsferð í kringum eyjuna, horfa á sólina sökkva ofan í Miðjarðarhafið eða rómantískan kvöldverð með geggjuðu útsýni yfir landið og miðin.