Héraðið Toskana er líklega frægasta vínræktarhérað Ítalíu og þaðan koma mörg af bestu vínum landsins. En það er einkum jarðvegur héraðsins ásamt ákjósanlegu veðurfari sem skapa þessar einstöku aðstæður til vínræktar. Í þessu stórkostlega vínræktarhéraði er að finna kastalann Brolio sem hefur verið í eigu Ricasoli-fjölskyldunnar síðan árið 1143. En vínhúsið Barone Ricasoli er eitt það elsta í heiminum sem verið hefur starfandi samfellt frá stofnun. Það má því segja að saga Ricasoli-fjölskyldunnar sé samofin sögu og þróun vínræktar í Toskana en fjölskyldan á m.a. heiðurinn af upprunalegu þrúgusamsetningu Chianti-vínanna sem var í gildi allt til ársins 1996.
Allt fram á áttunda áratug síðustu aldar framleiddi Barone Ricasoli gæðavín sem nutu mikilla vinsælda víða um heim. Í upphafi áttunda áratugarins, í kjölfar erfiðra tíma og mikilla breytinga, neyddist Ricasoli-fjölskyldan til að selja vínhúsið til kanadíska fyrirtækisins Seagram‘s. Með nýjum eigendum breyttist allt og ekki til hins betra. Framleiðslan var aukin á kostnað gæðanna sem aldrei hefur verið talin góð vísa þegar kemur að vínrækt. Eftir að hafa horft upp á vínhúsið hnigna í nærri tvo áratugi ákvað fjölskyldan árið 1993 að kaupa fyrirtækið á nýjan leik. Francesco Ricasoli, þá einungis 33 ára gamall, tók við stjórnartaumunum og hans beið mjög svo krefjandi verkefni að reisa vínhúsið aftur til vegs og virðingar.
Þegar fjölskyldan keypti vínhúsið á nýjan leik voru framleiddar í kringum tólf milljónir flöskur á ári af mjög misgóðu glundri en í dag, 22 árum síðar, framleiðir Barone Ricasoli „einungis“ tvær milljónir flöskur af gæðavíni. Til þess að ná þessum markmiðum sínum umbylti Ricasoli-fjölskyldan allri víngerðinni og ekki síst vínræktinni en nýjum vínvið var plantað og aukin áhersla á ýmsar alþjóðlegar þrúgur á borð við Capernet Sauvignon, Merlot, Syrah og Capernet Franc. Afrakstur þessara miklu breytinga hefur með mikilli vinnu skilað sér margfalt til baka því á undanförnum árum hafa komið dásamleg vín frá Barone Ricasoli, vín á borð við Casalferro, Castello di Brolio og Chianti Classico Riserva.
Barone Ricasoli tekur virkan þátt og styður við ýmsa viðburði sem glæða lífi í héraðið sitt, Toskana. Barone er t.d. einn af aðalstyrktaraðilum EROICA, hinnar þekktu reiðhjólakeppni Í Toskana þar sem menn koma saman með eldri hjólhesta sína og bruna um fallega sveitir Toskana.
Það er bjart yfir Castello di Brolio þessi misserin, árangur mikillar vinnu undanfarinna tveggja áratuga er farinn að skila sér margfalt til baka. Í dag er Barone Ricasoli stærsti framleiðandinn á Chianti Classico-svæðinu með hvorki fleiri né fær en 230 hektara af vínviði. Barone Ricasoli er ennfremur með í gangi áhugaverð verkefni í gangi, bæði í Bolgheri og Montalcino, sem skemmtilegt verður að fylgjast með í náinni framtíð.