Pecorino Romano er ítalskur ostur sem framleiddur er úr sauðamjólk en nafnið á honum er dregið af ítalska orðinu „pecora“ sem þýðir sauðfé. Pecorino Romano var framleiddur í Róm allt frá miðöldum til ársins 1884 þegar borgastjórnin í Róm ákvað að banna að salta ostinn inn í verslununum og brugðu margir framleiðendur á það ráð að flytja með allt sitt hafurtask til Sardiníu. Heiti ostsins er skrásett vörumerki auk þess sem Ítalir öðluðust lögverndun Evrópusambandsins á vöruheitinu Pecorino Romano. Í dag er eingöngu leyfilegt að framleiða þennan ost í Lazio, Sardiníu og í sýslunni Grosseto í Toscana.
Pecorino Romano kemur í þremur mismunandi útfærslum, allt eftir því hversu lengi hann hefur fengið að þroskast; í fyrsta lagi erum við að tala um „Stagionato“ sem hefur fengið að þroskast í 12 mánuði, svo er það Semi-stagionato sem hefur fengið að þroskast í 8 mánuði og að lokum er það „Fresco“ sem hefur einungis fengið að þroskast í 5 mánuði.
Þetta er mjög saltur ostur, svipar til Parmigiano en er mun bragðsterkari. Pecorino Romano er oftast rifinn út hina ýmsu pastarétti, t.d. réttina Bucatini all‘Amatriciana og Spaghetti alla Carbonara sem upprunnir eru í héraðinu Lazio. Pecorino Romano má aldrei nota í staðinn fyrir Parmigiano þar sem bragðið af honum er of sterkt í mildar sósur, en aftur á móti má alltaf nota Parmigiano í staðinn fyrir Pecorino Romano.
Pecorino Romano má nálgast t.d. í Hagkaup, Búrinu og Ostabúðinni á Skólavörðustíg.
Þetta er mjög saltur ostur, svipar til Parmigiano en er mun bragðsterkari. Pecorino Romano er oftast rifinn út hina ýmsu pastarétti, t.d. réttina Bucatini all‘Amatriciana og Spaghetti alla Carbonara sem upprunnir eru í héraðinu Lazio. Pecorino Romano má aldrei nota í staðinn fyrir Parmigiano þar sem bragðið af honum er of sterkt í mildar sósur, en aftur á móti má alltaf nota Parmigiano í staðinn fyrir Pecorino Romano.
Pecorino Romano má nálgast t.d. í Hagkaup, Búrinu og Ostabúðinni á Skólavörðustíg.