ENDALAUST ÆVINTÝRI - ENDALAUS ÁSTRÍÐA
Þegar ég, Kjartan Sturluson, var átta ára gamall í mínu fyrsta ferðalagi um Ítalíu var ég staddur í lítilli verslun og var að nuða í mömmu minni að fá litla fótboltaveifu í litum ítalska fótboltafélagsins AC Milan. Þegar ég var búinn að vinna mömmu á mitt band kom stór og mikill Ítali aðvífandi, baðaði út höndunum og sagði „no no no“ og vildi fyrir alla muni ekki láta mig kaupa þessa veifu. Þess í stað tók hann samskonar veifu í Juventus litunum, staðgreiddi veifuna og gaf litla stráknum frá Íslandi. Upp frá þessum degi hef ég verið harður stuðningsmaður Juventus en á ítölsku eru þeir kallaðir „gli juventini“.
Þetta varð einhvern veginn upphafið að ævintýri sem mun endast ævina á enda. Í dag er ég mikill áhugamaður um Ítalíu, hvort sem það er matur, vín, land eða þjóð. Ég hef búið þrisvar sinnum í Mílanó á Ítalíu; í fyrsta skiptið fór ég sem skiptistúdent í Bocconi-University, í annað skiptið þóttist ég vera að skrifa lokaritgerðina mína en gerði í rauninni ekki neitt nema að njóta lífsins og í þriðja sinn fór ég í meistaranám í viðskiptafræði við Bocconi-University.
Eftir að ég útskrifaðist úr meistaranáminu mínu árið 2004 fór ég oft og iðulega til Ítalíu á nýjan leik, allt frá tveim vikum upp í tvo mánuði í senn. Á öllum þessum tíma hef ég safnað að mér upplýsingum, fróðleik og reynslu um allt sem er ítalskt með sérstakri áherslu á mat og vín. Í tveimur síðastliðnum fæðingarorlofum hóf ég að skrifa skipulega um hvert og eitt einasta hérað landsins án þess í rauninni að hafa skýran tilgang með skrifunum. Í kjölfarið ákvað ég að setja upp þessa litla síðu þar sem ég kæmi öllu þessu frá mér og ég fengi útrás fyrir þessa ást mína á þessu dásamlega landi.
Njótið!!!
Eftir að ég útskrifaðist úr meistaranáminu mínu árið 2004 fór ég oft og iðulega til Ítalíu á nýjan leik, allt frá tveim vikum upp í tvo mánuði í senn. Á öllum þessum tíma hef ég safnað að mér upplýsingum, fróðleik og reynslu um allt sem er ítalskt með sérstakri áherslu á mat og vín. Í tveimur síðastliðnum fæðingarorlofum hóf ég að skrifa skipulega um hvert og eitt einasta hérað landsins án þess í rauninni að hafa skýran tilgang með skrifunum. Í kjölfarið ákvað ég að setja upp þessa litla síðu þar sem ég kæmi öllu þessu frá mér og ég fengi útrás fyrir þessa ást mína á þessu dásamlega landi.
Njótið!!!